Í gærkvöldi tóku Þórsarar á móti Skallagrími í Höllinni á Akureyri í 20. umferð Iceland Express deild karla í körfuknattleik. Skallagrímur kom með vænbrotið lið norður þar sem drengjaflokkur félagsins var að keppa í bikarkeppninni og vantaði nokkra leikmenn liðsins sem og þjálfara liðsins Igor Beljanski. Við fréttirnar reiknuðu heimamenn með frekar auðveldum sigri á gestunum og var það raunin. Gestirnir komust aldrei í takt við leikinn og heimamenn sigruðu örugglega, 140:66 og eiga því enn von um að halda sæti sínu meðal þeirra bestu.
Konrad Tota byrjaði af krafti fyrir heimamenn og setti niður tvo þrista í upphafi leiks. Gestirnir komu þó örlítið til baka í byrjun fyrri hálfleiks, en í stöðunni 8:7 skildu leiðir. Þórsarar pressuðu gestina allan völlinn og smá saman byggðu heimamenn upp gott forskot. Um miðjan fyrsta leikhluta tók Hrafn Kristjánsson þjálfari Þórs á það ráð að leyfa öllum leikmönnum liðsins að spila í fyrsta leikhluta. Þegar 1. leikhluta lauk leiddu heimamenn með 11 stiga mun, 35:24. Annar leikhlutinn byrjaði eins og sá fyrsti. Þórsarar voru grimmari og héldu áfram að byggja upp forskot sitt. Hins vegar um miðjan 2. leikhluta leystist leikurinn upp í smá vitleysu þar sem bæði lið reyndu að sýna listir sínar með mjög misjöfnum árangri. Konrad Tota lét heldur betur gestina finna fyrir því í fyrri hálfleik og setti skot sín niður eins og ekkert var. Hins vegar voru þeir Landon Quik og Sveinn Davíðsson sprækustu menn gestanna í fyrri hálfleik. Þórsarar héldu áfram að pressa á gestina og þegar liðin fóru til búningsklefa leiddu þórsarar leikinn með 36 stiga mun, 78:42. Tölur sem sjást sjaldan hér norðan heiða.
Þórsarar byrjuðu af miklum krafti í síðari hálfleik, gestirnir komust hvorki lönd né strönd þar sem heimamenn skoruðu fyrstu 12 stig hálfleiksins. Sama hvað gestirnir reyndu, niður vildi boltinn ekki. Þórsarar héldu uppteknum hætti og pressuðu gestina og smá saman jókst forskot heimamanna, enda voru gestirnir löngu búnir að játa sig sigraða. Það má í raun segja að seinni hálfleikur hafi verið þriggja stiga skotæfing fyrir heimamenn, þar sem Baldur Ingi Jónasson fór fremstur í flokki og setti niður sjö þriggja stiga skot. Hrafn var einnig drjúgur í þristunum og setti öll sín fjögur skot niður. Leikurinn leystist sem áður sagði í vitleysu. Þórsarar reyndu þó að halda sama dampnum út leikinn þó stundum með misjöfnum hætti. Fór svo að Þórsarar lönduðu öruggum 74 stiga sigri, 140:66 og eiga því enn von að halda sæti sínu í deildinni. Aftur á móti breyttist staða gestanna ekki neitt eftir leiki kvöldsins þar sem þeir voru þegar fallnir úr Iceland Express deildinni.
{mosimage}
Lítið er hægt að skrifa um þennan leik, sem í raun kláraðist á fyrstu mínútum leiksins. Gestirnir lenda náttúrlega í að þurfa að koma norður með vængbrotið lið og mæta þá liði sem er að berjast um að halda sæti sínu. Landon Quik á þó heiður skilið fyrir sinn leik þar sem hann reyndi hvað sem hann gat í leiknum. Quik setti niður 35 stig en það dugði þó skammt, Sveinn Davíðsson átti einnig lipra spretti í leiknum. Hjá heimamönnum átti Konrad Tota mjög góðan fyrri hálfleik en þurfti lítið að taka á stóra sínum í þeim síðari. Óðinn Ásgeirsson, Guðmundur Jónsson og Hrafn Jóhannesson áttu allir góða spretti í leiknum og skiluðu sínu hlutverki ágætlega. Baldur Ingi Jónasson sýndi í 3. leikhluta enn og aftur hversu góð skytta hann er, enda á tímabili klikkaði hann vart úr 3 stiga skotum. Aðrir áttu líka góðan leik, en mótspyrnan var bara því miður ekki öflug í dag. En liðið á enn möguleika að halda sæti sínu í deildinni og má segja að enn einn úrslitaleikur Þórs verði á fimmtudaginn þegar liðið mun mæta ÍR hér norðan heiða.
Við notum vafrakökur til að bæta upplifun þína á síðunni okkar. Með því að nota síðuna okkar samþykkir þú notkun vafraköku.
Þessi vefsíða notar vafrakökur
Vefsíður geyma vafrakökur til að auka virkni og sérsníða upplifun þína. Þú getur stjórnað stillingum þínum, en að loka fyrir sumar vafrakökur getur haft áhrif á afköst og þjónustu síðunnar.
Essential cookies enable basic functions and are necessary for the proper function of the website.
Name
Description
Duration
Cookie Preferences
This cookie is used to store the user's cookie consent preferences.