spot_img
HomeFréttirBreiðablik sigraði lánlausa bikarmeistara (Umfjöllun)

Breiðablik sigraði lánlausa bikarmeistara (Umfjöllun)

23:33
{mosimage}

(Sovic var sterkur í Blikaliðinu í kvöld)

Breiðablik tók í kvöld á móti nágrönnum sínum í suðri, Stjörnunni. Leikurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið en þessir fjendur berjast hart um sæti í úrslitakeppninni. Því var búist við hörkuleik í Smáranum.

Vægt væri til orða tekið að segja að leikurinn hafi farið fjörlega af stað. Liðin skoruðu ekki stig fyrstu tvær mínútur leiksins og eftir þó nokkur mislukkuð þriggja stiga skot skoraði Jovan Zdravevski fyrstu körfuna með sniðskoti eftir um þriggja mínútna leik. Liðin voru mjög jöfn þennan fysta fjórðung og skiptust á naumri forystu. Ólafur Sigurðsson spilaði vel fyrir Stjörnuna og var hann kominn með 8 stig að loknum leikhlutanum. Staðan 18-20 gestunum í vil eftir heldur brösuga byrjun.

Annar fjórðungur þróaðist mjög líkt hinum fyrsta. Hvorugu liðinu tókst að ná teljandi forystu í leiknum og forystan á stigatöflunni var í limbói. Fátt markvert gerðist í leikhlutanum nema við lokaflautuna en þá skoraði Daníel Guðmundsson góða flautukörfu og tryggði Blikum þriggja stiga forystu í leikhléi, 44-41. Leikurinn hafði þó verið frekar bragðdaufur fram að þessu.

Þriðji leikhluti var allt annað en augnakonfekt. Var oft og tíðum sem lok hefði verið sett á körfurnar því hvorugt liðið virtist fært um að hitta úr skotum. Stóðu Stjörnumenn sig sérlega illa í vítaskotum. Eins og í fyrri hálfleik voru liðin þó alltaf jöfn og þrátt fyrir tilþrifalítinn körfubolta, börðust bæði lið ágætlega. Staðan að loknum þriðja leikhluta var staðan 57-59 gestunum í vil.

Fjórði leikhluti var eign Blika. Þrátt fyrir að hafa aldrei náð yfirgnæfandi forystu þá virtist sem heimamenn væru einfaldlega hungraðri í tvö stig. Stjarnan virtist hafa misst móðinn og þrátt fyrir hetjulegar tilraunir til að jafna duttu skot Garðbæinga einkar treglega ofan í körfuna. Þegar 15 sekúndur voru eftir datt þó smá spenna í leikinn en þá tókst Stjörnunni að minnka muninn í eitt stig. Hins vegar fóru Nem Sovic og Rúnar Erlingsson á vítalínuna á síðustu sekúndum og tryggðu þeir Breiðabliki sigur á lánlausum Stjörnumönnum, 83-78.

Stjarnan hefur nú tapað þremur leikjum í röð eftir að hafa sigrað bikarkeppnina fyrir tveimur vikum. Ljóst er að lærisveinar Teits Örlygssonar þurfa heldur betur að taka sig saman í andlitinu ef þeir ætla að ná í úrslitakeppnina. Breiðablik er eftir leikinn í sjöunda sæti og skaust fyrir ofan Garðbæinga, sem sitja í áttunda sæti. Bæði lið hafa 16 stig.

Texti: Elías Karl Guðmundsson
Myndir: [email protected]

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -