spot_img
HomeFréttirSanngjarn Hamarssigur í Vodafone-höllinni (Umfjöllun)

Sanngjarn Hamarssigur í Vodafone-höllinni (Umfjöllun)

23:53
{mosimage}

(LaKiste Barkus fór mikinn hjá Hamri í kvöld)

Það má með sanni segja að það hafi aðeins eitt lið mætt til leiks í 1.leikhluta þegar Hamar og Valur mættust í sínum öðrum leik í keppni um hvort liðið færi í undanúrslit. Hamarsstelpur mættu ákveðnar til leiks. Leikurinn byrjaði nokkuð rólega og var staðan 4-2 fyrir Hamar en þá tóku Hveragerðisstelpur öll völd á vellinum og breyttu stöðinni í 17-2 þegar 1 mínúta var eftir af leikhlutanum en leikhlutinn endaði 19-5 fyrir Hamri.

Í öðrum leikhluta leit allt út fyrir að ekkert myndi stoppa Hamar sem skoruðu fyrstu 5 stig leikhlutans og staðan orðin 24-5. En þá kom góð syrpa hjá Val og þegar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum var munurinn orðin 6 stig. Á þeim tíma gekk allt upp hjá Val en það var eins og Hamarstelpurnar væru búnar að missa allt sjálfstraust og var La Kiste Barkus eini leikmaðurinn með lífsmarki en hún skoraði 10 stig af 15 stigum Hamars í leikhlutanum og sá til þess að Valur næði ekki yfirhöndinni. Melissa Mitidiero, erlendur leikmaður Vals, var kominn með 3 villur í hálfleik og hafði hvílt mestan 2.leikhluta og aðeins skorað 2 stig og var hún eini leikmaðurinn sem var komin í villuvandræði í hálfleik.

Valur átti í stökustu vandræðum með að skora í byrjun 3.leikhluta og skoraði Valur aðeins 3 stig á fyrstu 5 mínútunum leikhlutans gegn 10 stigum Hamars. Staðan í lok 3ja leikhluta var 38-50. Það mátti búast við að Valsstelpur mættu brjálaðar til leiks í 4.leikhluta enda myndi tap þýða að tímabilinu væri lokið. En á annarri mínútu leikhlutans fékk Melissa Mitidiero sína fimmtu villu og þurfti að yfirgefa völlinn eftir að hafa skorað 5 stig og fengið 5 villur á aðeins 21 mínútu. Valsstelpur héldu áfram að reyna það sem þær gátu en boltinn vildi ómögulega í körfuna. Á sama tíma voru Hamarsstelpur að spila mjög vel undir stjórn La Kiste Barkus og settu Jóhanna, Fanney og Íris allar niður góðar körfur og var munurinn orðinn 22 stig þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum og sigurinn í höfn.

La Kiste Barkus yfirburðarleikmaður með 29 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar, Julia Demirer spilaði frábæra vörn á Signý Hermannsdóttur ásamt því að taka 15 fráköst og skora 11 stig. Fanney Guðmundsdóttir (10 stig og 7 fráköst), Jóhanna Sveinsdóttir (7 stig), Íris Ásgeirsdóttir (6 stig og 7 fráköst) og Dúfa Ásbjörnsdóttir (5 stig) spiluðu allar mjög vel og börðust í vörninni.

Hjá Val var Signý Hermannsdóttir stigahæst með 12 stig, 23 fráköst og 8 varin skot en hún hefur oft skorað meira. Skotnýtingin hjá Valsliðinu var hræðileg eða 27,6% í 2ja og 19% í 3ja og 44% í vítum. Erlendur leikmaður Vals, Melissa Mitidiero var aldrei inn í leiknum og skoraði aðeins 5 stig á þeirri 21 mínútu sem hún spilaði en hún fékk sína fimmtu villu snemma í fjórða leikhluta og munaði miklu þar um. Aðrir leikmenn Vals virkuðu ekki tilbúnir til að stíga upp þegar Signý var tekin úr umferð og verður að segjast eins og er að það virkaði eins og Hamarsstelpur vildu meira komast í undan úrslit og unnu þær verðskuldaðan sigur, 51-70.

Texti: Bryndís Gunnlaugsdóttir
Myndir: Torfi Magnússon – Fleiri myndir á: http://www.flickr.com/photos/torfimagg/sets/72157614811659524/ 

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -