22:00
{mosimage}
(Jovan Lilja Stefánsdóttir gerir hér 2 af 12 stigum sínum í leiknum)
Grindavík bjargaði lífi sínu í Iceland Express deild kvenna í kvöld með 70-60 sigri á KR í öðrum leik liðanna í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Rétt eins og í fyrsta leik liðanna á þriðjudag var baráttan í algleymingi en frákastabarátta Grindavíkur reið baggamuninn í kvöld. Liðin mætast í oddaleik á sunnudag í DHL-Höll þeirra Vesturbæinga.
Bikarmeistarar KR mættu vel tjúnaðir til leiks og gerðu sjö fyrstu stigin í Röstinni á meðan Grindvíkingar virtust vart mættir í hús. Það þurfti eitt stykki Helgu Hallgrímsdóttur af tréverkinu hjá Grindavík til að koma heimaliðinu á blað og þá voru 4.25 mínútur eftir af fyrsta leikhluta. Ef boðið var upp á sveiflur í fyrstu viðureign liðanna þá var slíkt hið sama að finna í Röstinni í kvöld. Grindavík rankaði við sér eftir körfuna frá Helgu og gerðu eftir það 14 stig gegn tveimur frá KR það sem eftir lifði leikhlutans og staðan 14-9 að honum loknum fyrir Grindavík. Gular buðu upp á svæðisvörn eins og kannski við var að búast en Hildur Sigurðardóttir í liði KR virtist vera sú eina sem kunni eitthvert lag á vörn Grindavíkur.
Þær Lilja Sigmarsdóttir og Ólöf Helga Pálsdóttir voru grimmar í Grindavíkurliðinu í öðrum leikhluta en áfram var Hildur Sigurðardóttir beittust í liði KR. Grindvíkingar voru í óvenjulegu hlutverki í kvöld því gular áttu frákastabaráttuna sem hefur ekki verið þeirra sterkasta hlið gegn KR í síðustu viðureignum liðanna. KR náði að minnka muninn í 23-21 en þá setti Ólöf Helga Pálsdóttir niður þrist og jók muninn í 26-21 en leikar stóðu 27-21 í hálfleik Grindavík í vil.
Fjórar voru jafnar með 5 stig í Grindavíkurliðinu í hálfleik en það voru þær Ólöf Helga Pálsdóttir, Helga Hallgrímsdóttir, Ingibjörg Jakobsdóttir og Petrúnella Skúladóttir. Hjá KR var Hildur Sigurðardóttir stigahæst í leikhléi með 8 stig.
Svæðisvörnin var að gefa Grindavík vel og héldu gular því áfram þeim varnarháttum í seinni hálfleik. Vörn KR-inga var hinsvegar ekki upp á jafn marga fiska og í fyrri hálfleik en framan af héldu KR í við Grindavík og eftir fimm mínútna leik hafði Grindavík gert 12 stig en KR 11 og staðan 39-32 fyrir Grindavík. Vesturbæingar virtust hvorki sáttir við sinn eigin leik né dómgæsluna og Grindvíkingar nýttu sér þann mótbyr og lokuðu vörninni svo KR skoraði ekki stig það sem eftir lifði leikhlutans og því leiddu Grindvíkingar 48-32 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.
Helga Einarsdóttir átti líflegar ripsur fyrir KR í síðari hálfleik og kom með þrist fyrir bikarmeistarana í upphafi fjórða leikhluta og minnkaði muninn í 48-35 en Petrúnella Skúladóttir sem átti flottan dag í liði Grindavíkur svaraði að bragði með öðrum þrist og staðan orðin 51-35 fyrir Grindavík.
Eflaust veltu margir því fyrir sér á þessum tímapunkti hvort Grindavík gæti haldið forystunni en þær glopruðu henni niður í fyrsta leiknum í Vesturbænum þegar þær leiddu með 13 stigum fyrir fjórða leikhluta. Það kom ekki á daginn þrátt fyrir sterkt áhlaup KR. Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir neitaði að gefast upp í KR liðinu og sýndi framúrskarandi baráttu í kvöld. Þegar svo kom að stóru skotunum sem KR þurfti á að halda til að brúa bilið þá vildi boltinn ekki í netið og með Grindvíkinga í banastuði í fráköstunum var sigurinn innan seilingar.
Þegar rétt rúmar tvær mínútur voru til leiksloka tókst KR að minnka muninn í 62-51 en Grindavík hafði bersýnilega lært af reynslunni í Vesturbænum. Heimakonur í Röstinni héldu sjó og fögnuðu að lokum 70-60 sigri á KR í miklum baráttuleik.
Petrúnella Skúladóttir gerði 16 stig í liði Grindavíkur í kvöld og tók 5 fráköst en í heildina var Grindavíkurliðið að frákasta vel og þar fór Ólöf Helga Pálsdóttir fremst í flokki með 12 fráköst og 9 stig. Jovana Lilja Stefánsdóttir átti einnig góðan dag í Grindavíkurliðinu en átta leikmenn spiluðu fyrir Grindavík í kvöld og voru allir að leggja sitt af mörkum enda tóku Grindvíkingar 45 fráköst gegn 38 hjá KR. Í liði bikarmeistaranna voru Hildur Sigurðardóttir og Helga Einarsdóttir báðar með 15 stig en Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir var með 9 stig og 4 fráköst og leiddi lokaáhlaup KR af miklum krafti en það erfiði bar ekki ávöxt.
Gera má ráð fyrir mögnuðum oddaleik millum KR og Grindavíkur enda hafa fyrstu tveir leikir þessara liða einkennst af mikilli hörku og sterkum varnarleik. Liðin mætast á sunnudag í DHL-Höllinni í Vesturbænum kl. 16:00 og ætti enginn að láta sig vanta.
{mosimage}



