spot_img
HomeFréttirJóhannes: Grindavík átti bara skilið að vinna!

Jóhannes: Grindavík átti bara skilið að vinna!

22:09
{mosimage}

(Jóhannes Árnason)

,,Grindavík átti bara skilið að vinna þennan leik og stóru skotin okkar í endann sem voru ekki að detta endurspegluðu það sem átti að gerast hérna í kvöld. Grindvíkingar áttu bara skilið að vinna, þær spiluðu vel og bara tóku okkur,“ sagði Jóhannes Árnason þjálfari KR í samtali við Karfan.is eftir leik í Röstinni þar sem Grindavík lagði KR 70-60 og tryggði sér oddaleik í DHL-Höllinni á sunnudag.

KR byrjaði vel og komst í 7-0 og spurðum við Jóhannes hvort KR-konur hefðu eitthvað slakað á við jafn góða byrjun á leiknum? ,,Ég spurði leikmenn mína eftir leikinn hvað hefði gerst í kvöld en það var fátt um svör. Grindavík skipti bara um gír og Petrúnella kom þeim í gang í leiknum og smátt og smátt urðum við hlédrægari með hverri mínútunni og náðum ekki að brjóta okkur út úr því,“ sagði Jóhannes en þessi sömu lið mættust í undanúrslitum í fyrra og þá voru það KR sem léku sem nýliðar í deildinni og settu Grindavík út af laginu með sterkri svæðisvörn. Er verið að snúa við taflinu í höndum KR?

,,Þær eru að spila skemmtilegt afbrigði af svæðisvörn sem á reyndar að vera mjög einfalt að leysa og við munum bara leggjast vel yfir það og undirbúa okkur vel fyrir leikinn á sunnudag. Þetta er reyndar það sem gerir úrslitakeppnina svona skemmtilega, menn koma með eitthvað nýtt krydd og það hefur svínvirkað hjá þeim og við verðum bara að finna svarið,“ sagði Jóhannes en á hann einhverja kryddblöndu á móti þessu ferska bragði hjá Grindavík?

,,Ætli við förum ekki bara aftur í salt og pipar,“ sagði Jóhannes sposkur enda sjaldan langt í gamanið hjá Jóhannesi.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -