spot_img
HomeFréttirBarkley kominn í "steininn"

Barkley kominn í “steininn”


10:55:54

Charles Barkley hóf í gær þriggja daga afplánun vegna ölvunaraksturs sem hann varð uppvís að um áramótin. Hann var í upphafi dæmdur til tíu daga fangelsisvistar, en fékk viku fellda niður ef hann sækir áfengismeðferð í staðinn.
Stofnunin sem Barkely gistir á er ekki beint í anda þess sem lesendur þekkja úr sjónvarpi enda þótt maður af hans stærðargráðu þyrfti varla að hafa áhyggjur af lífi sínu og limum. Fangar á stofnuninni gista ekki í klefum heldur í eins manns tjöldum undir berum himni og hefur fangelsisstjórinn sagt að hegðun Barkleys hafi verið til fyrirmyndar.

Eftir að hafa tekið sér frí frá störfum hjá sjónvarpsstöðinni TNT er hann kominn aftur að borðinu með Kenny Smith og fær að fara úr fangelsinu í vinnu frá kl. 8 til 20 í dag á staðartíma og fær svo aftur frí í fyrramálið kl. 8 og þarf ekki að mæta til baka eftir það. Hann hefur þá setið samtals 36 klst innan „veggja“ fangelsisins.
Barkley þarf einnig að greiða 2000 dali í sekt og verða bílar hans allir útbúnir með áfengismæli sem kemur í veg fyrir að þeir fari í gang ef ökumaður er ölvaður.
Sjáið eftirminnilega lögregluskýrslu þar sem Barkley fer yfir atburðarásina í smáatriðum með því að smella hér.
ÞJ
Fréttir
- Auglýsing -