spot_img
HomeFréttirKR í undanúrslit eftir öruggan sigur á Grindavík (Umfjöllun)

KR í undanúrslit eftir öruggan sigur á Grindavík (Umfjöllun)

18:24
{mosimage}

(Hildur Sigurðardóttir setti 15 stig fyrir KR í dag)

KR mætir Keflavík í undanúrlsitum Iceland Express deild kvenna en Subaybikarmeistararnir úr Vesturbænum skelltu Grindavík 77-57 í dag í oddaleik liðanna í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. KR hafði yfirhöndina frá upphafi til enda og var mun sterkari aðilinn í dag. Einvígi þessara liða kom skemmtilega á óvart en fyrirfram höfðu margir spáð nokkurri einstefnu af hálfu KR en Grindvíkingar fóru ekki baráttulaust í sumarfrí. KR sýndu engu að síður í dag hvers megnugar þær eru og unnu sannfærandi 20 stiga sigur þar sem veglegt framlag leikmanna kom úr öllum áttum.

Leikstjórnandinn efnilegi Heiðrún Kristmundsdóttir var ekki með KR í dag þar sem hún glímir við smávægileg meiðsli á tá en hún er væntanleg í röndótt von bráðar. Rétt eins og í fyrri viðureignum liðanna var sóknin ekki í fyrirrúmi og því leiddu KR-ingar aðeins 14-9 eftir fyrsta leikhluta.

Í öðrum leikhluta tókst KR að rífa sig lítið eitt frá Grindavík þegar Guðrún Ámundadóttir setti þrist og breytti stöðunni í 22-13 en liðin gengu svo til hálfleiks og þá stóðu leikar 34-23 fyrir KR.

Jovana Lilja Stefánsdóttir var með 5 stig hjá Grindavík í hálfleik en gulum gekk illa að finna körfuna þar sem vörn KR var fyrnasterk. Hjá heimakonum var Hildur Sigurðardóttir komin með 8 stig og 7 fráköst í hálfleik.

Bikarmeistarar KR gerðu svo út um leikinn snemma í síðari hálfleik. Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir átti þá skemmtilega fléttu þegar hún náði sóknarfrákasti, lét frá sér boltann en fékk hann aftur og þakkaði fyrir sig með þriggja stiga körfu og staðan orðin 41-26 og KR-ingar litu ekki til baka eftir það. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 58-37 KR í vil og sama hvað Grindvíkingar reyndu þá virtist allur vindur úr þeim.

Bæði lið voru komin í nokkur villuvandræði í síðari hálfleik en það hafði engin áhrif á KR sem léku glimrandi vörn allt þar til lokaflautan gall og því luku Grindvíkingar leik með aðeins 57 stig og KR 77.

Fjórir leikmenn í liði KR voru með 10 stig eða meira og þar fór Hildur Sigurðardóttir fremst í flokki með 15 stig og 12 fráköst en í liði Grindavíkur var Jovana Lilja Stefánsdóttir með 10 stig og 4 fráköst. Aðrir leikmenn Grindavíkurliðsins létu minna að sér kveða og máttu sín oft lítils gegn ákveðinni KR vörninni.

KR mætir því Keflavík í undanúrslitum og deildarmeistarar Hauka mæta Hamri. Von er á miklum rimmum en þær hefjast í næstu viku.

Tölfræði leiksins:
http://server4.mbt.lt/prod/kki/index.php/b19sYW5nPWhlJm9fc2Vhcz0yMSZvX2xlYWc9MSZmdXNlYWN0aW9uPWdhbWVzLm1haW4mZ19pZD01MTY=

[email protected]

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -