
Utah Jazz hafa verið óstöðvandi að undanförnu og unnu í nótt sinn 12. leik í röð, nú gegn Indiana Pacers. Eftir brokkandi gengi í upphafi leiktíðar þar sem þeir glímdu við mikil meiðsli eru lærisveinar Jerry Sloans komnir í fluggírinn og eru komnir á topp síns riðils sem gæti tryggt þeim þriðja sætið í Vesturdeildinni þegar kemur að úrslitakeppninni í vor.
Leikurinn í nótt var frekar jafn og er ótrúlegt hvað Pacers hafa afrekað miðað við hve þunnskipaður hópur þeirra er og þá staðreynd að tveir bestu menn þeirra, Mike Dunleavy og Danny Granger hafa verið mikið frá vegna meiðsla. Jazz voru hins vegar sterkari á lokasprettinum. Mehmet Okur var með 24 stig fyrir Jazz og Paul Millsap var með 22 stig. Hjá Pacers var framherjinn Troy Murphy með 23 stig (þar af sjö 3ja stiga körfur) og 13 fráköst og þeir TJ Ford og Jarret Jack voru með 21 stig hvor.
Í öðrum leikjum má geta þess að LeBron James var með þrennu (32/13/11) í sigri Cleveland á LA Clippers, en þetta er annar leikurinn í röð sem James nær þrennu. Dallas lagði Phoenix og skyggði enn frekar á vonir þeirra að komast í úrslitakeppnina.
Loks vann Oklahoma Thunder góðan sigur á botnliði Sacramento Kings, 98-99, og hafa því unnið 5 af síðustu 6 leikjum sínum sem er ekki lítið afrek miðað við að þar er yngsta lið deildarinnar sem hefur verið án síns besta manns, Kevins Durant, í nokkurn tíma.
Hér eru úrslit næturinnar:
Utah 112 Indiana 100
New York 120 Milwaukee 112
Charlotte 86 San Antonio 100
Dallas 122 Phoenix 117
Oklahoma City 99 Sacramento 98
Cleveland 87 LA Clippers 83
ÞJ



