spot_img
HomeFréttirHlynur Elías: Vona að það verði meiri orka í okkur núna

Hlynur Elías: Vona að það verði meiri orka í okkur núna

12:40

{mosimage}

Miðherjinn öflugi Hlynur Elías Bæringsson hefur ásamt liðsfélaga sínum Sigurði Þorvaldssyni vakið verðskuldaða athygli en þessir tveir spilandi þjálfarar þreyta nú frumraun sína sem kallarnir í brúnni. Eldskírnin hefur gengið vel hingað til og luku Hólmarar keppni í 3. sæti Iceland Express deildarinnar og mæta Subwaybikarmeisturum Stjörnunnar í Stykkishólmi í dag kl. 16:00.

,,Síðast þegar við mættum Stjörnunni höfðum við að litlu að keppa en núna er þetta allt annað og ég vona að það verði meiri orka í okkur núna en þegar við mættum Stjörnunni síðast. Það var bara mjög greinilegt að við höfðum ekki að neinu að keppa þar sem við vorum fastir í 3. sæti,“ sagði Hlynur en félagi hans Sigurður Þorvalsson verður með Snæfellingum í dag en þó segir Hlynur að Sigurður hafi enn ekki náð fullum bata í meiðslum sínum.

,,Það mjög mikið um leikmann eins og Sigurð,“ sagði Hlynur sem undanfarin ár hefur mátt sjá á eftir gullinu í hendur annarra liða og þá sér í lagi til Keflavíkur. Vill hann ólmur mæta þeim ef horft er fram inn í úrslitakeppnina?

,,Það ætti nú ekki að vera þannig þar sem þeir hafa unnið okkur þrisvar en annars er mér alveg sama, við stefnum að því að vinna titilinn og þá þurfum við að fara í gegnum alla,“ sagði Hlynur sem sagði uppgang körfuboltans í Hólminum hafa verið nokkuð stöðugur undanfarið. ,,Það skiptir miklu máli að vel sé haldið á spilunum í svona litlu bæjarfélagi því það þarf lítið til að falla niður í 1. deild þar sem við erum ekki klúbbur á borð við t.d. Keflavík, KR og þessi stóru lið sem hafa ávallt nægan mannskap til að vera samkeppnishæf. Vel hefur verið staðið að hlutunum í Hólminum og þessvegna höfum við verið að ná langt,“ sagði Hlynur og bætti við að hann væri ánægður með þá nýliðun sem hafi átt sér stað í meistaraflokki Snæfells þar sem ungir leikmenn hafi verið að taka stór skerf.

Nú hafið þið verið spilandi þjálfarar í vetur, þú og Sigurður, og Hreinn Þorkelsson hefur verið að aðstoða ykkur í leikjum. Fáið þið einhverja aukaaðstoð í úrslitakeppninni? ,,Nei ég á ekki von á því en við værum alveg til í að kanna hvort Geoff Kotila væri til í að koma og hjálpa okkur ef hann dettur snemma út úr úrslitakeppninni með sitt lið,“ sagði Hlynur sposkur en hvernig finnst honum sjálfum hafa tekist til í þjálfarastól?

,,Þetta dregur rosalega mikið af þeim sem eru í þessu og æfingarnar eru ekki jafn góðar og hjá þeim sem eru eingöngu að þjálfa. Það þarf líka einhver að vera þjálfarinn okkar Sigurðar en í fullkomnum heimi eru allir með þjálfara og ég mæli ekki með þessu fyrirkomulagi sem við Sigurður höfum starfað við í vetur. Alls ekki óskastaða. Að öðrum kosti erum við bara brattir og sáttir við að ná 3. sætinu í deildinni. Nú fer bara í hönd hraðmót þar sem allt getur gerst,“ sagði Hlynur Elías Bæringsson annar tveggja þjálfara Snæfells í samtali við Karfan.is

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -