spot_img
HomeFréttirJón Arnar: Mætum klárir í verkefnið

Jón Arnar: Mætum klárir í verkefnið

13:40

{mosimage}

ÍR hafnaði í 7. sæti í deildarkeppninni og mætir því Grindavík í 8-liða úrslitum sem hefjast í dag kl. 16:00. Grindavík á heimaleikjaréttinn en gulir höfnuðu í 2. sæti í deildarkeppninni. Þrátt fyrir ógnarsterkan Grindavíkurhóp er Jón Arnar Ingvarsson þjálfari ÍR hvergi banginn og líst honum vel á þá glímu sem nú gengur í garð.

,,Við mætum bara klárir í verkefnið og höfum verið að þjappa okkur vel saman í síðustu leikjum og ætlum að sýna okkar bestu hliðar núna þegar það telur sem mest,“ sagði Jón Arnar sem á síðustu leiktíð fór með ÍR í undanúrslit og þá vakti það athygli hversu margir stuðningsmenn liðsins mættu til að hvetja sína menn áfram.

,,Það er góð stemmning og við erum með góðan stuðningsmannahóp sem ætlar að fjölmenna í Grindavík í dag, það er alveg klárt,“ sagði Jón en hefur hann svipuð markmið fyrir ÍR þessa leiktíðina og í fyrra? ,,Já já, að sjálfsögðu. Við erum ekkert að fara í þetta til þess að drífa okkur heim sem fyrst! Við ætlum að halda áfram eins og við getum og tökum einn leik í einu og vitum að þetta verður erfitt verkefni,“ sagði Jón sem gerir sér fyllilega grein fyrir því að Grindavíkurliðið getur á góðum degi nánast skorað að vild. Hvernig ætlar hann að grípa þar í taumana?

,,Þetta Grindavíkurlið er náttúrulega svakalegt og það vantar bara Gumma Braga því þá er þetta næstum því svona ,,Best of Grindavík“ og þeir hafa ofboðslega reynslu í úrslitakeppni og mikið af sóknarvopnum. Grindavík er samt ekki fullkomið lið frekar en neitt annað í þessari deild og við þurfum að nýta okkar kosti gegn Grindavík og að sama skapi nýta okkur þeirra veikleika,“ sagði Jón sem með ÍR hefur ákveðið að leika ekki með erlenda leikmenn þetta árið. Hvernig finnst honum ÍR liðinu hafa gengið að aðlagst því að vera án erlendra leikmanna?

,,Í heildina er ég nokkuð sáttur en við höfum misst út úr hópnum eftir því sem liðið hefur á tímabilið. Þannig höfum við innleitt nýja leikmenn en á meðan hafa tveir af okkar sterkustu leikmönnum, Sveinbjörn Claessen og Hreggviður, verið að glíma við meiðsli svo við höfum þurft að þjappa okkur vel saman,“ sagði Jón en hvað vill Jón segja við þá sem telja að nú séu ÍR-ingar bara komnir í sumarfrí?

,,Það er bara bull, við skulum bara spila leikina!“

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -