spot_img
HomeFréttirHaukar á leið í úrslit (Umfjöllun)

Haukar á leið í úrslit (Umfjöllun)

22:32

{mosimage}

Í kvöld var komið að fjórða leik Hamars og Hauka í undanúrslitum IE-deildar kvenna. Fyrir leikinn leiddu Haukastúlkur einvígið 2-1 og ljóst var að ef Hamarsstúlkur stæðu ekki sína pligt, þá væru Haukarnir á leið í úrslitin á móti KR.

Bæði lið komu mjög einbeitt til leiks í fyrsta leikhluta. Liðin skiptust á að skora og jafnt var með liðunum framan af. Í stöðunni 16-15 Hamri í vil gáfu Hamarsskonur örlítið í og breyttu stöðunni í 23-15. Lokaniðurstaðan eftir fyrsta leikhluta var 23-22 Hamri í vil og ljóst var að spennandi leikur væri framundan.

Annar leikhlutinn var vægast sagt skelfilega spilaður hjá Haukastúlkum og gekk ekkert upp hjá þeim. Hamarsstúlkur réðu ferðinni frá fyrstu mínútu og Haukastúlkur komu engum vörnum við. Flest allir boltar hjá Hamri rötuðu í körfuna og þegar 2 og hálf mínúta var liðin af leikhlutanum var staðan orðin 33-22 fyrir Hamri. Hamarskonur gáfu ekkert eftir og héldu áfram að raða niður stigum. Hamarskonur fóru með gott forskot inn í hálfleik og leiddu leikinn 42-28.

Hamarsstúlkur byrjuðu seinni hálfleikinn ekki eins vel og þær enduðu þann fyrri. Haukastúlkur skoruðu 8 fyrstu stigin og þar spilaði það stórt inn í að Hamarsstúlkur töpuðu of mörgum boltum. Fyrsta karfa Hamarskvenna leit ekki dagsins ljós fyrr en eftir rúmlega 4 mínútur og var þá staðan orðin 44-36. Nokkuð jafnræði komst á með liðunum aftur og minnkuðu Haukastúlkur forskot Hamars niður í 6 stig, 46-43 og 48-45. Eftir þriðja leikhluta leiddu Hamarskonur leikinn með 6 stigum, 53-47. Hamar lenti í þónokkrum villuvandræðum þegar að Kiki Barkus og Íris Ásgeirsdóttir voru báðar komnar með 4 villur í lok þriðja leikhluta, en Íris var búin að fara mikinn á vellinum fram að þessu.

{mosimage}

Í lokaleikhlutanum náðu Haukastúlkur að saxa á forskot Hamars jafnt og þétt og eftir 5 mínútur var staðan orðin 59-58 Hamri í vil. Frá því augnabliki réðu Hamarsstúlkur ekki almennilega við vörn Hauka og náðu þær rauðklæddu meðal annars að halda Hvergerðingunum fyrir aftan miðju nægilega lengi til þess að vinna boltann. Þá var staðan 62-64 Haukum í vil og var það í fyrsta skipti í leiknum sem að Haukastúlkur komust yfir síðan í stöðunni 2-3. Haukar héldu áfram að skora og var lokaniðurstaðan 65-69 fyrir Haukum og ljóst að þær væru að fara að mæta KR-ingum í úrslitum.

Atkvæðamest hjá Hamri var Íris Ásgeirsdóttir með 17 stig og næst á eftir henni kom La Kiste Barkus með 15 stig. Frekar lítið sást til Juliu Demirer sem hefur verið að gera góða hluti í síðustu leikjum.

Hjá Haukum var það Kristrún Sigurjónsdóttir sem var atkvæðamest með 24 stig og 7 stoðsendingar. Næst á eftir henni var það svo Monika Knight sem var með 13 stig.

Tölfræði leiksins

Pistill: Jakob Hansen

Fréttir
- Auglýsing -