00:05
{mosimage}
(Valur Ingimundarson)
,,Ég er rosalega sáttur við hvað leikmennirnir mínir hafa náð að halda haus við að gera veturinn skemmtilegan. Þetta er búið að vera erfitt, stöðugar breytingar á mannskap og því miður nýttist Fuad Memcic okkur ekki eins og við vildum en við reyndum og ég tek ofan af fyrir mínum mönnum fyrir að hafa verið jákvæðir í allan vetur,“ sagði Valur Ingimundarson þjálfari Njarðvíkinga en grænir eru komnir í sumarfrí eftir að hafa tapað 2-0 í 8-liða úrslitum gegn grönnum sínum úr Keflavík.
,,Menn voru því miður ekki tilbúnir að leika vörn í fyrri hálfleik í kvöld og ætluðu alltaf að redda vörninni bara í næstu sókn en það gengur ekki. Þegar ég fór svo að halda sama mannskapnum inn á vellinum sem hefur spilað mest saman í vetur þá fóru hlutirnir að ganga. Þetta var bara spursmál um að setja nokkrar mikilvægar körfur en þá fór kaninn hjá Keflavík að punda á okkur,“ sagði Valur sem tekur ofan af fyrir sínum mönnum en telur að vel megi byggja á liðinni leiktíð í Ljónagryfjunni.
,,Ég vona að ungir leikmenn í Njarðvík búi vel að þessum vetri og að uppaldir leikmenn komi til baka, það væri gaman. Ég er aldrei hræddur heldur horfi ég bara fram á við. Mér hefur fundist veturinn vera skemmtilegur en við náðum 5. sæti í deildinni og fengum jafn mörg stig fyrir og eftir áramót sem er mjög gott. Við reynum að byggja ofan á þetta,“ sagði Valur sem vill ótrauður halda áfram með liðið.
,,Ég vil taka þátt í uppbyggingunni, ef Njarðvík á að verða stórveldi aftur þá þarf að leggja á sig mikla vinnu. Það er rosaleg vinna að halda úti stórveldi,“ sagði Valur og gerir sér grein fyrir vinnunni sem er framundan.
,,Ég elst á svona áskorunum, þetta er einmitt það sem ég vil vera í. Ég er ánægður þó maður geti alltaf gert betur en ég hef engar áhyggjur af einu eða neinu,“ sagði Valur bjartsýnn um stöðu Njarðvíkinga þegar fram á veginn er litið.



