spot_img
HomeFréttir4816 áhorfendur á körfuboltaleik í Danmörku

4816 áhorfendur á körfuboltaleik í Danmörku

10:00

{mosimage}

Undanúrslit í dönsku úrvalsdeildinni hófust á fimmtudag, í undanúrslitum mætast annars vegar meistararnir í Bakken bears og Næstved og hins vegar Randers og Svendborg.  Bakkenmenn settu sér markmið fyrir leikinn við Næstved en það var að setja met í áhorfendafjölda á körfuboltaleik í Danmörku.

Gamla metið var 4007 áhorfendur sem mættu á leik Bakken og Åbyhøj fyrir tveimur árum og nú var markmiðið 5001, það voru 4816 sem mættu  og sagði Michael Piloz framkvæmdastjóri Bakken að það þýddi bara að enn væri hægt að bæta metið. Þess má geta að þessi áhorfendafjöldi er sá mesti á einum leik í innanhússíþrótt í Danmörku í vetur, meira að segja í upprunalandi handboltans. Hægt er að skoða myndir frá leiknum hér.

Annars var leikurinn prýðis skemmtun í fyrri hálfleik, Bakken menn mættu dýrvitlausir, höfðu æft grimma pressuvörn í pásunni sem þeir fengu á meðan hin liðin voru að leika í 1. umferð úrslitakeppninnar. Danska úrslitakeppnin er eins og í Iceland Express deild kvenna, 6 lið komast í hana og lið númer 1 og 2 komast beint í undanúrslit. Í undanúrslitum sló Næstved Amager út í tveimur leikjum og það sama gerði Svendborg við Søren Flæng og félaga í Hørsholm 79ers. En sem fyrr segir mættu Bakken menn mjög ákveðnir til leiks gegn lærisveinum Geoff Kotila en Næstved hafði unnið báða deildarleiki félaganna í vetur þó Bakken hafi unnið bikarúrslitaleik liðanna. Bakkenmenn buðu upp á mikla sýningu í fyrri hálfleik þar sem troðslu af öllum stærðum og gerðum voru í hávegum höfð. Seinni hálfleikur var aldrei eins spennandi enda úrslitin svo gott sem ljós í hálfleik og margir leikir framundan þar sem Danir leik „best of seven“ seríu í undanúrslitum og úrslitum. Leikurinn endaði 92-74 fyrir Bakken og var Eric Bell kosinn maður leiksins en hann lék líklega sinn besta leik fyrir Bakken í vetur.

Í hinum undanúrslitaleiknum heimsótti Svendborg Randers og fór með sigur með sér heim, 81-94, en Randers hafði unnið báða deildarleiki liðanna. Johnell Smith var stigahæstur Svendborgmanna með 27 stig en Bonell Colas skoraði 25 fyrir heimamenn.

[email protected]

Mynd: Carl Erik Hesseldal

Fréttir
- Auglýsing -