10:45
{mosimage}
(Þorleifur Ólafsson og Grindvíkingar taka á móti Snæfell í kvöld)
Tveir stórleikir eru í úrslitakeppnum úrvalsdeildanna í kvöld. Deildarmeistarar Hauka mæta þá Subwaybikarmeisturum KR í úrslitum Iceland Express deildar kvenna en KR leiðir einvígið 1-0 eftir 52-61 sigur að Ásvöllum í Hafnarfirði í fyrstu viðureign liðanna.
Í könnun sem hefur verið í gangi í nokkra daga hér á Karfan.is er stór meirihluti sem spáir KR Íslandsmeistaratitilinum í kvennaflokki. 66,7% aðspurðra telja að KR verði meistari en 33,3% telja að deildarmeistarar Hauka nái að snúa taflinu við og hampa þeim stóra. Hvað verður kemur í ljós á næstunni.
Þá mætast Grindavík og Snæfell í sínum fyrsta leik í undanúrslitum Iceland Express deildar karla og hefst leikurinn kl. 19:15 í Röstinni þar sem Grindvíkingar eiga heimaleikjaréttinn. Liðin mættust einmitt í undanúrslitum á síðustu leiktíð þar sem Snæfellingar sendu gula í sumarfrí eftir oddaleik í Stykkishólmi. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.



