spot_img
HomeFréttirHaukar jöfnuðu metin eftir spennuþrungnar lokamínútur (Umfjöllun)

Haukar jöfnuðu metin eftir spennuþrungnar lokamínútur (Umfjöllun)

22:04

{mosimage}
(Kristrún Sigurjónsdóttir nýbúin að sökkva síðustu stigum Hauka)

Deildarmeistarar Hauka jöfnuðu í kvöld metin í 1-1 gegn Subwaybikarmeisturum KR í baráttu liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express deild kvenna. Monika Knight átti einn sinn besta leik fyrir Hauka í vetur með 22 stig og 6 fráköst en það var sterk svæðisvörn Hauka sem gerði útslagið gegn KR sem hittu illa í kvöld ef frá er talin Hildur Sigurðardóttir sem setti 30 stig, tók 11 fráköst og gaf 3 stoðsendingar fyrir KR-inga í kvöld. KR gerði heiðarlega tilraun á lokasprettinum til þess að stela sigrinum eða knýja fram framlengingu en Haukar áttu lokaorðið og fögnuðu sigri 64-68.

Haukar gerðu fyrstu stig leiksins af vítalínunni þegar brotið var á Kristrúnu Sigurjónsdóttur í sniðskoti. Fyrstu stig KR komu einnig af vítalínunni en þar var að verki Hildur Sigurðardóttir þegar þrjár mínútur voru liðnar af fyrsta leikhluta svo óhætt er að segja að liðin hafi ekki farið sér að neinu óðslega í byrjun.

Slavica Dimovska kom Haukum í 2-6 með þriggja stiga körfu þegar tæpar sex mínútur voru eftir af upphafsleikhlutanum en KR-ingar voru á hinn veginn í stökustu vandræðum með að finna körfuna. Þrátt fyrir hlýnandi veðurfar var hitastigið við frostmark í DHL-Höllinni og því tóku KR-ingar leikhlé þegar 4.31 mín. voru eftir af fyrsta leikhluta.

{mosimage}
(Monika Knight var stigahæst Haukakvenna í kvöld)

Hildur Sigurðardóttir náði að gera fyrstu körfu KR í leiknum að frátöldum vítaskotum er hún minnkaði muninn í 4-6 og bætti síðan um betur með þriggjastiga körfu eru hún minnkaði muninn í 7-8. Hildur var allt í öllu hjá KR í upphafi leiks og jafnaði metin í 9-9 og var þá eini leikmaður KR sem skorað hafði í fyrsta leikhluta. Þegar rétt rúm mínúta var eftir af fyrsta leikhluta kom Hildur KR í 13-12 með körfu eftir gegnumbrot. Haukar áttu þó síðasta orðið og leiddu 13-14 að loknum fyrsta leikhluta þar sem þær Slavica Dimovska og Kristrún Sigurjónsdóttir voru einu liðsmenn Hauka sem höfðu skorað og því aðeins þrír leikmenn á vellinum komnir á blað eftir 10 mínútna leik!

Haukar stilltu upp í svæðisvörn í upphafi annars leikhluta enda um að gera þar sem enginn KR-ingur nema Hildur Sigurðardóttir var að hitta úr skotum sínum. Leikmenn beggja liða náðu þó fljótlega að hlaupa af sér hornin í öðrum leikhluta og fleiri nöfn fóru að sjást í stigaskorinu.

Helena Hólm kom fersk af bekknum í liði Hauka í öðrum leikhluta og byrjaði á því í fyrsta skoti að fá villu og körfu góða og kom Haukum því í 19-23. Svæðisvörn Hauka var að virka vel því KR-ingar höfðu aðeins gert 6 stig á fyrstu fimm mínútum annars leikhluta og voru enn ískaldar í langskotum sínum.

Þegar þrjár mínútur voru til hálfleiks fékk Helga Einarsdóttir sína þriðju villu í liði KR og skömmu þar á undan hafði Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir einnig fengið sína þriðju villu svo þær máttu passa sig það sem eftir lifði leiks. Haukar voru jafnan skrefinu á undan KR í fyrri hálfleik og ef ekki væri fyrir Hildi Sigurðardóttur hefðu Haukar vísast stungið af.

{mosimage}
(Hildur Sigurðardóttir var sjóðandi hjá KR og setti 30 stig)

Á lokaspretti fyrri háflleiks áttu Haukar góða rispu en Hildur Sigurðardóttir kom þá enn einu sinni til bjargar með þriggja stiga körfu og minnkaði muninn í 29-34 og var þá sjálf komin með 20 stig. Guðrún Sigurðardóttir átti síðan lokaorðin fyrir KR í fyrri hálfleik er hún náði eigin sóknarfrákasti, fór upp og skoraði í teignum af miklu harðfylgi og minnkaði muninn í 33-34 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Hildur Sigurðardóttir var alger yfirburðamanneskja í liði KR í fyrri hálfleik með 20 stig og 6 fráköst en hjá Haukum var Monika Knight með 11 stig og 4 fráköst. Þær Slavica Dimovska og Kristrún Sigurjónsdóttir voru báðar með 8 stig hjá Haukum en KR-ingar söknuðu sárt framlags frá þeim Helgu Einarsdóttur og Guðrúnu Gróu sem voru ekki komnar á blað í stigaskorinu í fyrri hálfleik.

Haukar mættu líflegri í síðari hálfleikinn og gerðu fljótt 10 stig gegn 2 frá KR og því stóðu leikar 35-44 þegar rétt rúmar þrjár mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Haukar voru enn í 2-3 svæðisvörn sem gaf vel því nýting KR hefur oft verið mun betri. Þegar fjórar mínútur voru til loka þriðja leikhluta leiddu Haukar 40-49 og KR-ingar tóku leikhlé enda gekk þeim miður vel að saxa á forskot gestanna sem áttu svar við flest öllum aðgerðum KR.

Leikhléið bar ekki tilætlaðan árangur hjá KR því eftir leikhléið gerðu Haukar næstu fjögur stig og leiddu 40-53. Á meðan KR-ingar hittu hilla gegn 2-3 svæðisvörn Hauka voru gestirnir í fínum gír þar sem þær Monika, Slavica og Kristrún stýrðu sóknarleik gestanna af mikilli röggsemi. Haukar leiddu því 47-58 að loknum þriðja leikhluta og var ljóst að nokkuð hafði dregið af Hildi Sigurðardóttur í liði KR sem gerði aðeins 3 stig í þriðja leikhluta.

{mosimage}
(Sigrún Ámundadóttir var sterk í liði KR)

Strax í upphafi fjórða leikhluta fékk Margrét Kara Sturludóttir sína fjórðu villu í liði KR. Kara og Guðrún Gróa voru með fjórar villur hjá KR og Helga Einarsdóttir sem var vart skugginn af sjálfri sér í kvöld var með þrjár villur. Í liði Hauka var lítið um villuvandræði enda vörðust þær vel í svæðisvörninni og lögðu þar grunninn að góðum sigri sínum.

Sigrún Ámundadóttir var þó ekki tilbúin til að gefast upp í liði KR fyrr en í fulla hnefana og minnkaði hún muninn í 56-64 og snöggtum síðar braust Hildur Sigurðardóttir í gegnum Haukavörnina og skoraði og staðan orðin 58-64 þegar 4.30 mín. voru til leiksloka og Yngvi Páll Gunnlaugsson þjálfari Hauka bað um leikhlé.

Hildur Sigurðardóttir fann fjölina að nýju og með þriggja stiga körfu var staðan orðin 61-64 fyrir Hauka og mikil stemmning farin að gera vart við sig í liði KR og á meðal áhorfenda. Við þessa upprisu KR-inga skiptu Haukar úr 2-3 svæðisvörn og fóru í 3-2 svæðisvörn enda benti allt til þess að kuldi KR-inga í langskotum væri við það að verða að hitabylgju og það vildu Haukar ekki á lokasprettinum. Þegar tæpar tvær mínútur voru svo til leiksloka leiddu deildarmeistarar Hauka 61-66.

Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir setti stóran þrist fyhrir KR þegar 50 sekúndur voru til leiksloka og minnkaði muninn í 64-66. Næsta Haukasókn fór forgörðum og þegar 3 sekúndur voru til leiksloka var brotið á Margréti Köru Sturludóttur og gat hún tryggt KR framlengingu. Fyrra vítaskot Köru geigaði sem og það síðara,  Haukar náðu frákastinu og var brotið á Kristrúnu Sigurjónsdóttur þegar 1 sekúnda var til leiksloka. Haukar voru komnir í skotrétt og Kristrún hélt á línuna.

Kristrún setti niður bæði vítin af miklu öryggi og tryggði Haukum þar með sigurinn í leiknum. Lokatölur voru 64-68 Haukum í vil en það verður að teljast KR til tekna að þegar flestir höfðu afskrifað bikarmeistarana hófu þær að saxa á forskot Hauka og gerðu heiðarlega tilraun til þess að stela sigrinum. Haukar héldu þó sjó og jöfnuðu einvígið 1-1 og því mætast liðin í sínum þriðja leik að Ásvöllum fimmtudaginn 26. mars næstkomandi.

Monika Knight átti einn sinn besta leik fyrir Hauka í vetur með 22 stig og 6 fráköst. Næst henni var Slavica Dimovska með 18 stig og 6 stoðsendingar og Kristrún Sigurjónsdóttir gerði 13 stig og tók 9 fráköst. Í liði KR bar Hildur Sigurðardóttir af með 30 stig, 11 fráköst og 3 stoðsendingar en aðrir leikmenn voru nokkuð fjarri sínu besta. Margrét Kara Sturludóttir var næst Hildi með 9 stig og 4 fráköst en Sigrún Ámundadóttir gerði 8 stig og tók 14 fráköst.

Leikhlutar:
1. leikhluti
13-14
2. leikhluti
33-34 (20-20)
3.leikhluti
47-58 (14-24)
4. leikhluti
64-68 (17-10)

[email protected]

myndir: [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -