spot_img
HomeFréttirMörg met féllu í DHL höllinni

Mörg met féllu í DHL höllinni

7:38

{mosimage}

Hörður Axel lék allar 60 mínúturnar í gær 

Leikur KR og Keflavíkur bauð upp ekki aðeins upp á háspennu – lífshættu. Hann bauð einnig upp á mörg met sem verða sjálfsagt seint slegin.

Fyrir það fyrsta hefur leikur aldrei verið fjórframlengdur í úrslitakeppni, metið í úrslitakeppni var þrjár framlengingar í leik Keflavíkur og Grindavíkur þann 2. apríl 1999 en þeim leik lauk með sigri Keflavíkur 122-119. Leikurinn í gær var jafnfram jöfnun á meti í fjölda framlenginga í efstu deild karla því þann 17. október 1999 var leikur Skallagríms og KFÍ í Úrvalsdeild fjórframlengdur. Það má til gamans geta þess að annar dómari leiksins í Borgarnesi var Einar Einarsson sem var eftirlitsdómari í DHL höllinni í gær.

Annað met sem leikurinn í gær bauð uppá er fjöldi stiga í einum leik, aldrei hafa verið skoruð jafn mörg stig í leik í úrslitakeppni, 253. Þríframlengdi leikurinn í Keflavík átti metið fyrir en flest stig í einum leik í Úrvalsdeild voru skoruð 16. október 1988 í þríframlengdum leik Tindastóls og Hauka, 275 stig en leikurinn endaði 134-141.

Stigin 129 sem KR skoraði í gær eru það næst mesta sem eitt lið hefur skorað í leik í úrslitakeppni, 21. mars 1999 skoruðu Keflvíkingar 132 gegn Haukum í Strandgötunni og þá skoruðu Keflvíkingar 129 stig gegn Skallagrím 30. mars 2006. 124 stig hjá Keflavík er jafnframt að næstmesta sem lið hefur skorað á útivelli, metið eru 132 stigin sem Keflavík skoraði í Strandgötunni 1999.

Enn eitt metið er mínútufjöldi Harðar Axel Vilhjálmssonar, hann lék allar 60 mínúturnar í gær en enginn annar leikmaður hefur leikið jafn margar mínútur í einum leik. Í fjórframlengdaleiknum í Borgarnesi spilaði Clifton Bush 59 mínútur fyrir KFÍ.

Jesse Pellot-Rosa er ekki sá fyrsti til að skora 51 stig í leik í úrslitakeppni en Damon Johnson skoraði 51 stig fyrir Keflavík í þríframlengda leiknum 1999. Því miður er ekki hægt að staðfesta þetta sem met/metjöfnun eins og er en reikna má með að þetta sé í það minnsta mjög nálægt meti. En þess má geta að flest stig í einum leik í Úrvalsdeild skoraði John Johnson fyrir Fram þann 17. nóvember 1979. Framar unnu ÍS 104-92 og skoraði Johnson 71 stig í leiknum. Flest stig í einum leik skoraði þó Danny Shouse í leik Skallagríms og Ármanns í 1. deild karla 1. desember 1979 en 1. deild var þá eins og nú næst efsta deild. Shouse lék þá með Ármanni og skoraði 100 stig, til gamans má geta að stigahæsti leikmaður Skallagríms var Decarsta Webster sem skoraði 60 stig, Webster fékk seinna íslenskan ríkisborgararétt og tók þá upp nafn sonar sína og hét Ívar Webster.

[email protected]

Mynd: [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -