06:00
{mosimage}
(Ingvaldur Magni og Hólmarar berjast fyrir lífi sínu í kvöld)
Snæfell og Grindavík mætast í kvöld í sinni fjórðu viðureign í undanúrslitum Iceland Express deildar karla. Grindavík leiðir einvígið 2-1 og þarf aðeins einn sigur til viðbótar til að tryggja sig inn í úrslitarimmuna gegn KR en ef Snæfell vinnur í kvöld þarf að blása til oddaleiks í Röstinni í Grindavík. Liðin mætast í Stykkishólmi í kvöld kl. 19:15 og verður leikurinn í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Grindavík hafði öruggan sigur í fyrstu rimmu liðanna 110-82 og tóku svo annan leikinn í Stykkishólmi 81-84. Snæfellingar bitu svo í skjaldarrendur í þriðja leiknum og unnu Grindvíkinga fyrstir liða í Röstinni 97-104 í tvíframlengdum leik. Páll Axel Vilbergsson hefur ekki leikið neitt gegn Snæfellingum sökum meiðsla og Hólmarar létu Slobodan Subasic fara fyrir þriðju viðureignina og lönduðu þá sigri.
Hvað gerist í Hólminum í kvöld verður fróðlegt að sjá!
Þá er einn leikur í unglingaflokki karla þegar FSu tekur á móti Haukum í Iðu á Selfossi kl. 20:30.



