22:29
{mosimage}
(Kristrún Sigurjónsdóttir fyrirliði Hauka var sæl í leikslok að Ásvöllum)
Haukar eru Íslandsmeistarar í Iceland Express deild kvenna leiktíðina 2008-2009. Haukar tóku á móti KR að Ásvöllum í oddaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn þar sem Haukar fóru með sigur af hólmi 69-64. Slavica Dimovska fór mikinn í liði Hauka með 27 stig, 8 fráköst og 4 stoðsendingar en hún var jafnframt valin besti leikmaður úrslitakeppninnar. Annað árið í röð mega KR-ingar sætta sig við silfrið en liðið lá einnig í úrslitum gegn Keflavík í fyrra. Það telst KR til mikilla tekna að hafa ekki notast við erlendan leikmann í vetur en samt orðið bikarmeistarar og silfurverðlaunahafar Íslandsmótsins. Á þar síðustu leiktíð var klúbburinn í 1. deild en hefur svo sannarlega stimplað sig inn að nýju sem stórveldi í kvennakörfunni.
Fjölmenni var að Ásvöllum í kvöld og var boðið upp á jafnan og spennandi leik. Sigrún Ámundadóttir leiddi lið KR í upphafi leiks og gerði sex fyrstu stig Vesturbæinga í leiknum þar sem lítið var skorað og nokkuð um mistök. Slavica Dimovska jafnaði metin fyrir Hauka í 9-9 og Haukar leiddu síðan 14-12 eftir fyrsta leikhluta.
Liðunum tókst að ná upp smá takti í öðrum leikhluta og Guðrún Sigurðardóttir kom fersk af bekknum hjá KR og lét vel til sín taka. Haukar náðu þó forystunni, 22-14, með tveimur þristum frá Kristrúnu Sigurjónsdóttur og Slavicu Dimovsku. KR-ingar voru þó hvergi nærri af baki dottnir og komust yfir 22-23 með þriggja stiga körfu frá Guðrúnu Ámundadóttur.
KR-ingar héldu áfram frá því í fjórða leiknum að leika demantsvörn með einn varnarmann á boltamann. Haukum gekk vel að leysa þessa vörn hjá KR en tókst samt ekki að hrista gesti sína af sér. Fyrri hálfleikur var hnífjafn þar sem varnarleikurinn var í fyrirrúmi og stóðu leikar 30-30 í hálfleik. Hjá Haukum var Slavica Dimovska með 10 stig í hálfleik og Kristrún Sigurjónsdóttir var með 7 stig. Hjá KR var Hildur Sigurðardóttir með 8 stig í hálfleik og Sigrún Ámundadóttir með 7.
{mosimage}
(Margrét Kara Sturludóttir var stigahæst í liði KR í kvöld)
Strax í upphafi þriðja leikhluta fóru villuvandræðin að gera vart við sig og Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir fékk sína þriðju villu strax á upphafssekúndum síðari hálfleiks. Baráttan var áfram góð en liðin áttu í basli með að finna körfuna og því var staðan 35-35 þegar tæpar fjórar mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.
Þegar líða tók á þriðja leikhluta sigu Haukar framúr undir styrkri stjórn Slavicu sem kom sínum konum í 40-35 með þriggja stiga körfu. Þær Guðrún Gróa og Hildur Sigurðardóttir fengu báðar sínar fjórðu villu í liði KR þegar naumt var til loka þriðja leikhluta og máttu því gæta sín í þeim fjórða. Haukar leiddu 48-41 að loknum þriðja leikhluta og spennandi lokasprettur í vændum.
Margrét Kara Sturludóttir tók leikinn í sínar hendur í upphafi fjórða leikhluta og með þremur þriggja stiga körfum frá Köru á skömmum tíma tókst KR að minnka muninn í 52-51 en vörn Hauka var heillum horfin í upphafi fjórða leikhluta. Haukar tóku leikhlé og réðu sínum ráðum en liðin skiptust á forystunni uns Monika Knight kom Haukum á sporið 59-53 með þriggja stiga körfu þegar 4 mínútur voru til leiksloka.
KR-ingar reyndu eftir fremsta megni að saxa á forskotið en reiðarslagið kom þegar mínúta var til leiksloka er Haukar settu mikilvægan þrist og breyttu stöðunni í 66-59. Á þessum tíma týndist hver leikmaðurinn á fætur öðrum af velli með fimm villur og bæði lið hefðu verið nokkuð vængbrotin ef blásið hefði verið til framlengingar. Eins og KR-ingum einum er lagið tókst þeim að berja sig inn í leikinn og minnka muninn í 66-64 þegar 17 sekúndur voru til leiksloka en þar var Sigrún Ámundadóttir á ferðinni með tvö vítaskot og allt í járnum. Sigrún setti vítin og Haukar tóku innkast.
{mosimage}
(Kristrún í teigbaráttunni)
KR-ingar pressuðu á innkast Hauka og fengu dæmda á sig villu fyrir að brjóta á Slavicu en virtust ekki sáttar við þá villu. Slavica fór engu að síður á línuna og kom Haukum í 68-64. KR brunaði upp völlinn og þær Hildur Sigurðardóttir og Sigrún Ámundadóttir reyndu báðar að minnka muninn með þriggja stiga skotum sem ekki vildu ofan í og því var sigur Hauka í höfn. Lokatölur urðu 69-64 Haukum í vil eftir æsispennandi leik.
Slavica Dimovska steig vel upp í liði Hauka með 27 stig, 8 fráköst og 4 stoðsendingar. Henni næst var Monika Knight með 15 stig og 8 stoðsendingar og þriðja í röðinni var Kristrún Sigurjónsdóttir með 11 stig og 6 fráköst. Þá átti Ragna Margrét Brynjarsdóttir fína spretti með 6 stig, 9 fráköst, 6 varin skot og 4 stoðsendingar.
Hjá KR var Margrét Kara Sturludóttir með 18 stig, 7 fráköst og 3 stoðsendingar en það hitnaði vel undir henni í fjórða leikhluta sem hleypti KR að nýju upp að hlið Hauka. Hildur Sigurðardóttir gerði 16 stig fyrir KR, tók 7 fráköst og gaf 6 stoðsendingar og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir var með 13 stig og 10 fráköst.
Íslandsmótinu í Iceland Express deild kvenna er því lokið þar sem Haukar eru Íslandsmeistarar og deildarmeistarar en KR-ingar eru Subwaybikarmeistarar. Skemmtilegur vetur að baki í kvennaflokki og ljóst að einhverjar breytingar eru framundan í herbúðum liðanna og tilkynnti Jóhannes Árnason þjálfari KR það í kvöld að hann myndi ekki halda áfram með liðið á næstu leiktíð en Jóhannes fór með KR upp úr 1. deild og tvö ár í röð stýrði hann Vesturbæingum í úrslit Íslandsmótsins og til eins bikarmeistaratitils.
{mosimage}
{mosimage}



