23:14
{mosimage}
(Hildur Sigurðardóttir)
Landsliðskonan Hildur Sigurðardóttir, leikstjórnandi KR, var að vonum vonsvikin með silfurverðlaunin í kvöld þegar Haukar urðu Íslandsmeistarar. Þetta eru önnur silfurverðlaunin í röð hjá KR sem tapaði gegn Keflavík í úrslitum Íslandsmótsins í fyrra.
,,Það vantaði sáralítið upp á hjá okkur í dag, Slavica átti stórleik í kvöld og þegar hún er svona er erfitt að stoppa hana. Hún getur sett skotin niður hvar sem er og hún er bara þannig leikmaður að þegar hún er heit ráða fáir við hana,“ sagði Hildur sem var þó ánægð með gengi KR undanfarin tímabil þar sem liðið kom upp úr 1. deild á þarsíðustu leiktíð.
,,Þessi uppbygging mun halda áfram og KR er með ungt kvennalið núna sem er meistaralið en það á eftir að fínisera smáatriði. Við erum með lið sem hefði getað klárað þetta í dag en þetta féll bara Haukamegin. Á næstu árum er bara bjart framundan hjá KR,“ sagði Hildur og hún ætlar sér lengra með KR.
,,Við erum með lið sem á að geta unnið allt en við skulum sjá hvernig þetta þróast t.d. varðandi erlenda leikmenn sem hefur mikil áhrif á deildina,“ sagði Hildur sem verður áfram í KR á næstu leiktíð en hvað finnst henni um að Jóhannes Árnason verði ekki áfram með KR. ,,Ég vil bara fá annan færan mann til að taka við liðinu og gera góða hluti með okkur eins og Jói,“ sagði Hildur en er hún sátt við tímabiliði í heild?
,,Já já, við áttum samt klárlega að vera ofar í deildinni en það skipti engu máli því við unnum okkur inn í úrslitin og stóðum okkur vel. Sópuðum Keflavík út í sumarið og fórum í fimm leiki gegn Haukum sem eru með mjög sterkt lið þannig að þetta er ágætur árangur hjá okkur. Að sjálfsögðu er maður svekktur að hafa ekki klárað þetta því munurinn í kvöld var bara fimm stig,“ sagði Hildur Sigurðardóttir sem átti magnaða leiktíð með KR.



