12:00
{mosimage}
Við látum hér í lokin fylgja spá Sigurðar Elvars Þórólfssonar íþróttafréttamanns á Morgunblaðinu. Hann hefur lengi fylgst með körfubolta, lék með ýmsum stórliðum á ferli sínum eins og ÍA, Skallagrím og Laugdælum og ólíkt því sem gerist í dag þegar fólk skrifar rangar kennitölur þá notaði hann mismunandi nöfn. Fyrir þá sem ekki vita þá eru Sigurður E. Þórólfsson og Elvar Ægisson sami maðurinn.
Hér koma vangaveltur Sigurðar Elvars:
„Hvernig leggst úrslitarimman í þig?
Hvernig leggst úrslitarimman í þig?, er spurningin sem Rúnar Birgir Gíslason á karfan.is varpaði fram og óskaði eftir að fá svar við. Hann hefur líklega verið í starfskynningu á RÚV þegar hann var á „Króknum“ að safna bringuhárum og körfuboltamyndumaf Greg Kite, Jon Koncak, Joe Kleine og Will Purdue. Bara til þess að nefna einhverja af uppáhaldsleikmönnum Rúnars.
Hvernig leggst leikurinn í þig?, er án efa langlífasta spurning íþróttafréttamanna á RÚV og víðar.
Það er ekki hægt að spá fyrir um úrslitin og ég bendi Rúnari á að á hinum endurbætta veraldarvef ja.is. Samkvæmt mínum heimildum þá er Rúnar nettengdur. Þar er að finna nokkra sérfræðinga sem gefa sig út fyrir að vera spámiðla. Það er jafnvel hægt að fá snyrtingu í leiðinni. Allavega er Erla Alexandersdóttir spámiðill og snyrtifræðingur í símaskránni.
Rúnar er búsettur í Danmörku og hann gæti einnig komið við í Vogum á leiðinni frá Leifsstöð þar sem að spákonan Silja Ýr Björnsdóttir er búsett.
Í Sódómu Reykjavík og nágrenni eru fjölmargir aðilar sem eiga kristalskúlu. Ef Rúnar kæmi með lífrænt ræktað eðalstöff beint frá Kristjaníu þá væri eflaust hægt að klára dæmið með einfaldri spá á stuttum tíma.
Hvernig leggst leikurinn í þig?. Stórt er spurt. Ég veit allavega að leikirnir verða þrír, í það minnsta, og við fjölmiðlamenn værum ekki sáttir við slíka niðurstöðu. Dagblöðin koma ekki út fyrr en á laugardag eftir Föstudaginn langa og þriðji leikurinn fer fram á Skírdag. Frábær tímasetning, eða þannig.
Ég veit líka að Grindvíkingurinn Helgi Jónas Guðfinnsson getur grísað sig í „hel“ og Jón Arnór Stefánsson úr KR vann í Víkingalottóinu á lokasekúndum framlengingar nr. M sem væri sú milljónasta í Róm til forna. Helgi mun aldrei drífa á körfuna af þessu færi aftur eins og hann gerði undir lok þriðja leikhluta gegn Snæfelli í fjórða leiknum í Stykkishólmi. Helgi er nokkrum dögum eldri og menn á hans aldri þurfa víst ísböð og eðalgaldra á milli leikja til þess að koma sér í stand.
Jón Arnór kom KR í úrslitin með því að jafna metin gegn Keflavík á lokasekúndum í 2. framlenginu gegn KR. Myndi veðja 2-ball Odyssey pútternum mínum upp á að Jón Arnór gæti ekki endurtekið þetta skot með sama árangri þrátt fyrir 20 tilraunir og með Benedikt Guðmundsson þjálfara og Inga Þór Steinþórsson sem varnarmenn. Ekki séns. Skeggið á Friðriki Ragnarssyni hvarf fyrir fjórða leikinn í Stykkishólmi og ég efast ekki um að nánustu ættingjar Friðriks hafa fagnað þeirri ákvörðun. Ég hélt um tíma að maðurinn væri farinn að tala þýsku reiprennandi. Skeggið hvarf og leikur Grindvíkinga lagaðist í kjölfarið.
Benedikt Guðmundsson er það ungur að hann þarf ekki að raka sig nema 2-3 sinnum í mánuði. Hann safnar því ekki skeggi en ég legg til að Benni fái sér skeiðklukku og þykka ERREA úlpu eins og Ólafur Jóhannesson þjálfari íslenska karlalandsliðsins er með um hálsinn í ERREA úlpunni.
Ég átti að skrifa eitthvað gáfulegt um væntanlega leiki KR og Grindavíkur. Rúnar verður bara að hringja í 552-4244 en þar svarar Sirrý Sigfús en hún gefur sig út fyrir að vera spákonu á ja.is.
Ég spái því að það fari bikar á loft mánudaginn 13. apríl.“
[email protected]
Mynd: Sigurður Elvar Þórólfsson



