spot_img
HomeFréttirKR hafði betur í fyrstu lotu, 1-0 (Umfjöllun)

KR hafði betur í fyrstu lotu, 1-0 (Umfjöllun)

17:47
{mosimage}
(KR hafði sigur á heimavelli í fyrsta leik um Íslandsmeistaratitilinn stóra)

KR hafði betur í fyrstu orustu tveggja bestu liða landsins um Íslandsmeistaratitilinn í DHL höllinni í dag.  KR hafði strax myndarlega forustu eftir fyrsta leikhluta og þurftu gestirnir því að elta allan leikinn.  Það munaði 14 stigum á liðunum í hálfleik en KR náði þeim mun upp í rúmlega 20 stig á tímabili í þriðja leikhluta.  Grindavík mætti hinsvegar af fullum krafti í lokaleikhlutan og minnkuðu muninn smám saman.  Það voru hins vegar 4 stig sem skildu liðin að þegar flautað var til loka leiksins, 88-84.  Stigahæstir í liði KR voru Fannar Ólafsson og Helgi Már Magnússon með 22 stig hvor en næstir voru Jason Dourisseau með 17 stig og Jón Arnór Stefánsson með 15 stig.  Hjá Grindavík var Nick Bradford yfirburðamaður með 38 stig og 9 fráköst.  Næstir voru Helgi Jónas Guðfinnsson með 13 stig og Brenton Joe Birmingham með 12 stig.  
KR-ingar byrjuðu leikinn óneitanlega betur, þeir nýttu hraðaupphlaupin vel og höfðu strax 5 stiga forskot eftir tvær mínútur af leiknum, 7-2.  Kr komst í 11-2 en þá tóku skyttur Grindavíkur við sér.  Gestirnir skoruðu 6 stig í röð og munurinn var kominn niður í 3 stig áður en langt um leið, 11-8.  Helgi Már Magnússon byrjaði leikinn af krafti fyrir heimamenn og átti 7 stig af fyrstu 13 stigum heimamanna.  Heimamenn voru að spila gríðarlega hraðan og skilvirkan bolta og ekki leið á löngu þar til Grindavík tók leikhlé, 21-14.  Leikhléið virtist þó hafa mun betri áhrif á leik heimamanna en gestana sem skoruðu næstu 6 stig leiksins og höfðu náð 10 stiga forskoti áður en langt um leið, 27-17.  Þegar ein mínúta var eftir af leikhlutanum höfðu heimamenn 11 stiga forskot, 29-18.  Þegar flautað var til loka leikhlutans höfðu heimamenn 12 stiga forskot, 30-18.  Það einkenndi leik heimamann að hlaupa völlinn af gríðarlegum krafti og gáfu Grindavík ekkert auðvelt skot.

Grindvíkingar þurftu að hafa mikið fyrir hverju skoti í upphafi annars leikhluta og voru að þvinga mjög erfið skot sem geiguðu í flestum tilvikum.  KR nýttu sér hins vegar ekki tækifærið því skotin geiguðu jafn óðum hinu megin á vellinum.  Þegar fjórar mínútur voru liðnar af leikhlutanum höfðu heimamenn aðeins skorað 4 stig gegn 5 stigum gestana.  Sóknarleikur gestana gjörbreyttist með tilkomu Arnars Freys og þegar rúmlega fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum hafði Grindavík minnkað muninn niður í 6 stig, 36-30 og KR tók leikhlé.  Það var allt annar leikur í boði í öðrum leikhluta og þegar um það bil þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum höfðu KR aðeins skorað 9 stig gegn 15 stig gestana í leikhlutanum.  Það var ekki fyrr en Jason Dourisseau tróð með þvílíkum tilþrifum að húsið tók kipp sem virtist kvikna aftur í sóknarleik heimamanna.  Friðrik Ragnarsson var því ekki lengi að taka leikhlé og lesa yfir sínum mönnum, 43-34.  Pálmi Freyr Sigurgeirsson átti seinustu orð leikhlutans með nokkuð vafasömu þriggja stiga skoti með nokkrar sekúndur á leikklukkunni.  Heimamenn höfðu því 14 stiga forskot þegar flautað var til hálfleiks, 50-36.  

{mosimage}

Stigahæstur hjá heimamönnum í hálfleik var Jason Dourisseau með 14 stig, næstir voru Jón Arnór Stefánsson og Helgi Már Magnússon með 9 stig hvor.  Hjá Grindavík var Nick Bradford lang atkvæðamestur með 18 stig en næstir voru Páll Kristinsson  og Helgi Jónas Guðfinnsson með 4 stig hvor.  

Grindvíkingum gekk brösulega að finna góða sóknarmöguleika í þriðja leikhluta og leituðu oftar en ekki til Nick Bradford.  Það gekk þó lítið til lengdar og smám saman sigu KR lengra frammúr.  Þegar leikhlutinn var hálfnaður var forskot heimamanna komið upp í 18 stig, 59-41.  Það leið ekki á löngu þar til munurinn var kominn upp í 20 stig og virtist á tímabili eins og leikmenn Grindavíkur væru hræddir að taka af skraið í sóknarleiknum.  Það kom þess vegna ekki nokkrum manni á óvart að þegar flautað var til loka leikhlutans var forskot KR komið upp í 23 stig, 74-51.  

Heimamenn voru farnir að hægja á leiknum strax í upphafi fjórða leikhluta og hlupu völlinn ekki af sama krafti og fyrr í leiknum.  Forskotið minnkað hins vegar lítið þar sem Grindavík fór ótrúlega illa með þau færi sem gáfust.  Gestunum tókst þó að minnka munin smám saman þegar leið á.  Þegar leikhlutinn var hálfnaður var munurinn kominn niður í 15 stig, 81-66.  Það munaði miklu fyrir gestina að fleiri tóku af skarið í sóknarleiknum sem auðveldaði verkið töluvert.  Það var stórt skarð skorið í sóknarleik KR þegar Helgi Már fór útaf með 5 villur og fjórar mínútur eftir af leiknum, en Helgi hafði þá skorað 22 stig í leiknum, mest í liði KR. Grindavík kom muninum niður í 8 stig þegar ein og hálf mínúta var eftir.  Friðrik Ragnarsson tók þá leikhlé í þeirri von að snúa stöðu leiksins sínum mönnum í vil.  Þegar um það bil 20 sekúndur voru eftir var munurinn kominn niður í 5 stig og tókst Grindvíkingum að gera lokasekúndur leiksins æsispennandi.  Það var hins vegar KR sem hafði betur og höfðu 4 stiga sigur, 88-84.  

Umfjöllun: Gísli Ólafsson
Myndir: [email protected]

{mosimage}

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -