spot_img
HomeFréttirRekin út úr Hot Yoga tíma: Helena gerir upp tímabilið

Rekin út úr Hot Yoga tíma: Helena gerir upp tímabilið

15:28
{mosimage}

(Helena Sverrisdóttir ásamt liðsfélaga sínum Micha Garoutte)

Helena Sverrisdóttir fékk það vandasama verkefni í upphafi leiktíðar að vera fyrirliði bandaríska háskólaliðsins TCU þar sem hún leikur körfubolta og stundar nám. Helena var nýliði hjá TCU í fyrra og vakti þar óskipt athygli en í ár spilaði hún sem einn helsti máttarstólpi liðsins. TCU hafnaði í 3. sæti í Mountain West keppninni og datt út í fyrstu umferð í NCAA keppninni þar sem 64 sterkustu háskólalið Bandaríkjanna öttu kappi. Helena sópaði að sér verðlaunum í ár og var m.a. hæstu leikmanna í fjórum tölfræðiþáttum í Mountain West deildinni. Helena segir í viðtali við Karfan.is að hún telji að TCU hafi átt meira inni þessa leiktíðina en kveðst spennt fyrir þeirri næstu þar sem TCU mun setja markið ansi hátt.

Þið voruð ansi brattar eftir sigur á Maryland í upphafi tímabils enda liðið talið eitt það sterkasta í kvennaflokki í Bandaríkjunum. Kom þetta ykkur á óvart þar sem TCU er nokkuð neðar á styrkleikalistanum?
Þetta kom okkur kannski ekki beint á óvart, við vorum búnar að tala um að ná í sigur úr þessum leik allt undirbúningstímabilið. Að sigra þann leik vissum við samt að yrði langsótt, en eftir leikinn þá leið manni ansi vel, enda hafði maður meiri tilfinningu hversu gott liðið okkar virkilega gæti orðið, og gaf okkur ennþá meiri orku og von um að þetta tímabil gæti orðið frábært.

{mosimage}

Nú varst þú fyrirliði TCU í vetur og leiddir liðið í öllum helstu tölfræðiþáttum. Fannst þér þungar byrðar settar á þínar axlir aðeins á þínu öðru ári hjá liðinu?
Þegar Eboni Magnum sleit krossbönd í fyrsta æfingaleiknum í vetur, vissi ég að ég yrði virkilega að stíga upp sóknarlega, ég hafði séð mig skora um 12 stig í leik, því Eboni er mikill skorari og hefði líklegast verið að skora um 15-20 stig í leik. En það var ekki endilega neitt nýtt fyrir mig, að þurfa að bera liðið uppi, hlutverk sem ég hef haft oft áður, þegar ég spilaði heima. Ég kem með mikla reynslu frá Íslandi, bæði úr Evrópukeppninni með Haukum sem og landsliðunum. Þegar ég er að spila þá hugsa ég ekki um hvaða ár ég er, eða hvaða ár andstæðingurinn er, við erum allar þarna á sama vellinum, búnar að leggja þvílíkt á okkur til að komast þangað, þannig að þegar leikurinn hefst er það bara hver vill þetta mest.

Og hvernig gekk þér að axla alla þessa ábyrgð?
Persónulega finnst mér ég hafa staðið mig nokkuð vel, auðvitað fullt af hlutum sem ég get bætt, en svona yfir allt þá held ég að þetta hafi verið fínt ár. Mittie þjálfari sat mig niður eftir tímabilið og sagðist vera mjög stoltur af hvernig ég höndlaði þetta í ár, og það var mjög góð viðurkenning fyrir mig fannst mér, og ég finn að hann hefur 100% traust og trú til mín.

Allt fram að MWC keppninni var TCU að gera góða hluti en þið ætluðuð ykkur meira í Mountain West, var það ekki?
Við lentum í 3ja sæti á eftir Utah og SDSU, aðeins einum sigri frá fyrsta sætinu. Við unnum samt bæði Utah og SDSU einu sinni í vetur, en þetta er gríðarlega sterk og jöfn deild, og því má ekkert útaf bera ef þú ætlar þér sigur. Í úrslitakeppninni í Vegas lentum við í miklu basli með UNLV, lentum 20 stigum undir í fyrri hálfleik. Við reyndum allt sem við gátum til að koma tilbaka, skoruðum m.a. 52 stig í seinni hálfleik, en það gekk ekki í það sinn.  Eboni, hafði verið einn sterkasti leikmaðurinn okkar þrátt f. krossbandsslit, og hnéð gaf sig þegar MWC byrjaði, þannig að það var erfitt að fylla hennar skarð, en ég er samt stolt af því sem við gerðum, töpuðum 4 leikjum í mjög svo sterkari deild.

{mosimage}

Þú stóðst fyrir hverju metinu á fætur öðru hjá TCU í vetur, er þetta eitthvað sem þeir í skólanum voru að gera mikið úr, fékkstu töluverða athygli fyrir vikið?
Að vera leikmaður hérna í TCU gefur manni sjálfkrafa mikla athygli, ég fann kannski ekkert fyrir neinni sérstakri athygli, en þessi pakki sem ég er í hérna er alveg æðislegur, fólkið í Fort Worth er mjög meðvitað um íþróttir, og við stelpurnar förum varla í WalMart án þess að vera stoppaðar af einhverju fólki sem er að óska okkur til hamingju eða hvetja okkur.

Það var svo stutt gaman hjá ykkur í NCAA keppninni. Áttuð þið meira inni?
Já ég vil meina það, en South Dakota er með flott lið, spiluðu á 12 leikmönnum á fullu, á meðan við vorum að spila á 8-9 leikmönnum. En aftur var það þessi fyrri hálfleikur sem fór algjörlega með okkur. En við missum aðeins 1 senior í ár, og erum að fá inn 4 góða nýliða, Eboni verður tilbúin eftir krossbandaaðgerðina, þannig að ég er bara mjög bjartsýn fyrir næsta ár, og markið er sett hátt.

Hvað er svo á döfinni hjá þér þangað til þú kemur heim 9. maí?
Núna erum við að klára viku 2 af hvíld, og svo tekur við bara hörku off season. 3 æfingar í viku með lyftingarþjálfaranum, svo 2 í viku með hlaupa/hot yoga  og fleira í þeim dúr.

Það er ýmislegt sem gengur á í Háskólalífinu og Helena var svo góð að lauma inn einni skemmtilegri sögu:

Hot Yoga er semsagt venjulegt Yoga en í herbergi þar sem hitastigið er sett uppí 40 gráður og tíminn er 90 mínútur. Við stelpurnar í liðinu tókum þessum yoga tíma sem refsingu, enda sáum við ekki alveg afhverju þú myndir gera sjálfum þér þetta. Rakinn sem myndast inní herberginu er gríðarlegur, og fólk svitnar og svitnar. TK, einn liðsfélagi minn var að reyna að ná einni yoga stellingu, þegar það vildi ekki betur til, en að hún rann til úr stellingunni, datt á mig og ég datt á Micuh… þannig að í miðju yoga herberginu, þar sem ekki má tala eða gefa frá sér hljóð (fólk sem þekkir mig vita hversu erfitt það er) duttum við 3, eins og domino effect í gólfið, skellihlógum í um 5 min og var hent út, þangað til við yrðum tilbúnar að "meditate-a" (hugleiða).

[email protected] 

Fréttir
- Auglýsing -