23:47
{mosimage}
(Þorleifur barðist vel í Grindavíkurliðinu í kvöld)
,,Við spiluðum miklu betri vörn í kvöld en í fyrsta leiknum og vorum fastari fyrir. KR er gott lið og ef við erum ekki fastir fyrir þá valta þeir bara yfir okkur eins og þeir gerðu í fyrsta leik,“ sagði Þorleifur Ólafsson leikmaður Grindavíkur í samtali við Karfan.is í kvöld. Þorleifur átti ljómandi góðan dag með gulum en hann setti 14 stig, tók 11 fráköst og gaf 4 stoðsendingar.
,,Við þurfum að mæta af hörku í DHL-Höllina til að vinna þar og vonandi fáum við tvö tækifæri til þess að ná í sigur þar, það verður erfitt því þar eru KR sterkari svo við þurfum að bæta í hjá okkur. Í kvöld fannst mér við heppnir að vera setja skotin niður því við vorum bara ekki nægilega góðir þrátt fyrir sigurinn,“ sagði Þorleifur en það er staðreynd að ef Grindavík ætlar sér að verða Íslandsmeistari verða þeir að gera það sem engu liði hefur tekist á þessari leiktíð, að vinna í DHL-Höllinni.
Þorleifur var nokkuð rislítill í fyrsta leik liðanna en var fantagóður í kvöld, fannst honum komin pressa á sig um að stíga upp í Grindavíkurliðinu?
,,Já, ég og aðrir þurftum að gera það og í kvöld mættum við af hörku og tilbúnir í slagsmál. Ef þú mætir ekki tilbúinn þá ertu í vondum málum gegn leikmönnum á borð við Jón Arnór, Jakob, Fannar og Helga sem hafa oft leikið svona stórleiki,“ sagði Þorleifur en er hann þá búinn að hlaupa af sér úrslitahornin þar sem hann tekur þátt í sínum fyrstu úrslitum Íslandsmótsins?
,,Já, við skulum vona það og segjum bara að næstu leikir verði hörkuleikir héreftir,“ sagði Þorleifur kátur með sigurinn á KR í kvöld.



