spot_img
HomeFréttirOddaleikur á mánudag: Jason og Fannar rosalegir í Röstinni (Umfj.)

Oddaleikur á mánudag: Jason og Fannar rosalegir í Röstinni (Umfj.)

18:14
{mosimage}

(Jason Dourisseau fann sig vel gegn Grindavík í dag)

Í fyrsta sinn í áratug þarf að bregða til oddaleiks í úrslitaeinvígi í úrvalsdeild karla en KR-ingar náðu að jafna metin í 2-2 gegn Grindavík með 83-94 sigri í Röstinni. Félagarnir Jason Dourisseau og Fannar Ólafsson fóru á kostum í liði KR í dag og báru röndótta á ný inn í DHL-Höllina. Leikur dagsins var harður, hraður og spennandi eins og við var að búast þar sem KR-ingar höfðu undirtökin en Grindvíkingar komust nokkrum sinnum upp að hlið gesta sinna en svartir og hvítir reyndust sigurvegarar við lokaflaut. Oddaleikur liðanna fer fram í DHL-Höllinni á mánudag kl. 19:15 og vissara að fólk tryggi sér miða í forsölu þar sem uppselt var í Röstina þremur korterum fyrir leik.

Grindvíkingar héldu glæsta sýningu fyrir leik þar sem þeir Hreimur og Jónsi tóku saman lagið við miklar undirtektir viðstaddra og síðan var boðið upp á myndbandsupphitun með tilþrifum úr herbúðum Grindvíkinga og það kveikti vel upp í áhorfendum og því næsta rökrétta skref að hefja fjörið sjálft.

Vesturbæingar tóku snemma smávaxna forystu 2-6 en þá rankaði Brenton Birmingham við sér og kom Grindvíkingum fljótlega í 7-6. Eftir sex mínútna leik var staðan aðeins 10-10 og mikil harka í leiknum sem skilaði sér í miður góðri skotnýtingu liðanna. Helgi Magnússon var að finna sig í upphafsleikhlutanum og gerði 7 stig í liði KR en Páll Axel Vilbergsson fyrirliði Grindavíkur kom heitur af bekknum og sallaði niður fimm stigum í röð fyrir heimamenn. Það voru þó KR-ingar sem leiddu eftir upphafsleikhlutann 19-22.

Í öðrum leikhluta voru það KR-ingar sem höfðu frumkvæðið og leiddu ávallt með litlum mun. Þeim tókst vel að halda Nick Bradford í skefjum sem gerði aðeins 4 stig í fyrri hálfleik. Jón Arnór Stefánsson setti stóran þrist fyrir Vesturbæinga þegar rúmar þrjár mínútur voru til hálfleiks og kom hann KR í 33-37. Grindvíkingar tóku leikhlé fyrir vikið og að því loknu hófu þeir að saxa á forskotið og komust yfir 44-43 þegar Arnar Freyr Jónsson keyrði inn í KR teiginn, skoraði og fékk villu að auki. Helgi Magnússon braut á Arnari og fékk þar sína þriðju villu.

KR-ingar voru þó ekki á því að vera undir í hálfleik og brunaði Jason Dourisseau inn í Grindavíkurteiginn og skoraði úr sniðskoti þegar tvær sekúndur voru til hálfleiks og því stóðu leikar 44-47 fyrir gestina í leikhléi. Heimamenn í Röstinni voru afar ósáttir við þessi síðustu stig Jason og töldu hann hafa skrefað en dómarar leiksins sáu ekkert athugavert við málið og því karfan góð.

Jason Dourisseau var með 15 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar í hálfleik fyrir KR en Páll Kristinsson var stigahæstur í liði Grindavíkur með 9 stig og 3 fráköst.

{mosimage}

Páll Axel Vilbergsson hóf síðari hálfleik á bekknum hjá Grindavík en eftir þriggja mínútna leik kom hann inn með látum og minnkaði muninn í 51-55 með þriggja stiga körfu. Skömmu síðar fékk Jason Dourisseau sína fjórðu villu í liði KR og lék ekki meira í þriðja leikhluta. Páll Axel hélt áfram að hrella KR-inga en hann átti sinn besta leik í seríunni í dag með 18 stig og 4 fráköst. Þegar líða fór á þriðja leikhluta voru það Grindvíkingar sem náðu forystunni með þrist frá Arnari Frey Jónssyni og leiddu heimamenn 68-65 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.

Skammt var liðið af fjórða leikhluta þegar Jason Dourisseau kom inn af bekknum hjá KR en í fjarveru hans hafði Fannar Ólafsson farið mikinn með gríðarlegri baráttu og þegar Jason loks bættist í hópinn var það Grindvíkingum hreinlega um megn.

Þorleifur Ólafsson minnkaði muninn í 76-81 með grísaþrist spjaldið ofan í en sama hvað heimamenn í Röstinni reyndu þá voru KR-ingar ávallt skrefinu á undan. Fannar og Jason börðust vel í teignum á báðum endum vallarins en þeir félagar voru saman með 22 fráköst í liði KR.

Þegar ein mínúta var til leiksloka leiddu KR-ingar 83-90 og heimamenn héldu í sókn en misstu boltann af velli og það dugði KR-ingum til þess að landa sigri og lokatölur urðu 83-94 KR í vil og því þarf að blása til oddaleiks á mánudag sem fram fer í DHL-Höllinni kl. 19:15.

Jason Dourisseau lauk leik með 27 stig, 9 fráköst og 3 stolna bolta og var Fannar Ólafsson honum næstur með 20 stig og 13 fráköst. Í liði Grindavíkur var Páll Axel Vilbergsson með 18 stig og 4 fráköst en í dag tókst KR-ingum að halda vel aftur af Nick Bradford sem gerði 14 stig í leiknum en þess má geta að Nick hefur gert 14 stig í báðum heimaleikjum Grindavíkur í seríunni á meðan hann fer hamförum í Vesturbænum, verður slíkt hið sama á könnunni í oddaleiknum? Brenton Birmingham var einnig með 14 stig í liði Grindavíkur.

[email protected]

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -