spot_img
HomeFréttirBenedikt: Tókum til í hausnum eftir leik 3

Benedikt: Tókum til í hausnum eftir leik 3

12:55
{mosimage}

(Benedikt með Íslandsmeistaratitilinn)

,,Sá sem myndi halda því fram að hér hefðu leikið til úrslita tvö af sterkustu liðum Íslands hin síðari ár væri að fara með hárrétt mál,“ sagði Benedikt Guðmundsson þjálfari KR í samtali við Karfan.is eftir að Íslandsmeistaratitill þeirra KR-inga fór á loft í Vesturbænum í gærkvöldi. ,,Þetta verður seint leikið eftir og hæfileikarnir í báðum þessum liðum verða seint toppaðir,“ sagði Benedikt en rifjar upp eldri rimmu sem einnig var hæfileikum prýdd.

,,Ég man eftir mikilli seríu þegar Jón Arnór og Logi Gunnarsson voru að etja kappi við hvorn annan en þetta var bara svo jafnt núna og sigurinn kemur í oddaleik með einu stigi, þetta var bara eins og í handriti,“ sagði Benedikt en hvað flaug í gegnum huga hans þegar KR var einu stigi yfir, tæpar 20 sekúndur til leiksloka og Grindvíkingar í sókn.

,,Það var lítið annað að gera en að vona það besta, vörnin hafði ekki í síðustu sóknum þar á undan verið sannfærandi en þetta er það sem við viljum. Að tímabilið ráðist á einni sókn, við leikum einhverja 40 leiki en allt kemur þetta niður á því að einhver varnarmaður KR nái að pota í boltann hér í síðustu sókninni,“ sagði Benedikt en hann hefur lagt gríðarlega áherslu í allan vetur á varnarleik sinna manna enda þau ófá liðin sem hafa átt í mesta basli oft og tíðum með að finna KR körfuna.

,,Þegar við náum að halda liðum í kringum og undir 80 stigum þá höfum við verið að vinna þau en það er aðeins auðveldara að segja það gegn Grindavík en í raun að framkvæma það. Þeir eru gríðarlega sterkir sóknarlega og í hvert einasta skipti sem Nick Bradford stígur hérna inn í KR heimili þá er hann bara með 30 stig eða meira,“ sagði Benedikt en við snérum talinu að Jóni Arnóri Stefánssyni og inntum Benedikt eftir því hvernig hans mál stæðu.

,,Þetta er einn flottasti íþróttamaðurinn sem við eigum og með honum fylgdi ákveðin pressa sem okkur gekk erfiðlega með á köflum,“ sagði Benedikt en jókst pressan eftir bikartapið gegn Stjörnunni?

,,Það er besta liðið sem verður Íslandsmeistari en það er hægt að misstíga sig í bikar. Eftir að við lendum 2-1 undir gegn Grindavík varð ákveðinn vendipunktur í okkar leik. Við tókum til í hausnum á okkur og fórum að setja nýjar hugsanir inn í kollinn á mönnum. Innleiddum það hjá mönnum að leika af gleði og ekki mæta í leikina til að tapa ekki og verja einhverja dollu sem einhverjir réttu okkur í september en sást aldrei hér í KR heimilinu. Við fórum bara að spila af ákafa og með hjartanu í heilar 40 mínútur og eftir það var KR liðið bara allt annað lið,“ sagði Benedikt en hvað finnst honum standa upp úr heilt yfir á leiktíðinni?

,,Fyrir mér er það mórallinn í liðinu, þetta eru strákar sem eru flestir búnir að fá sama körfuboltalega uppeldið. Þeir hafa hlustað á mig og Inga bulla í þeim frá því þeir komu fyrst hingað inn svo hægt er að segja að við höfum fyrir langa langa löngu byrjað að leggja inn fyrir þessum sigri. Fyrir mig er þetta einstök tilfinning,“ sagði Benedikt sem kvaðst reiðubúinn til að hætta eftir þessa leiktíð því aðstæðurnar í ár hefðu verið einstakar. ,,Það voru líka menn utan hópsins sem voru virkilega að taka á því með okkur, en það voru leikmenn á borð við Ólaf Ægisson og Hjalta Kristinsson svo þetta var einstakt í alla staði,“ sagði Benedikt sem hefur því gefið það nokkuð vel til kynna að hann verði ekki áfram við stjórnartauman í Vesturbænum en hvað verður í þeim efnum mun sumarið leiða í ljós.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -