20:26
{mosimage}
Nú þegar úrslitakeppnin er að baki og körfuknattleikstímabilinu er að ljúka hefur eitt atriði vakið athygli mína, einn hluti leiksins sem hefur ekkert verið ræddur, ekkert verið í fjölmiðlum og engar neikvæðar athugasemdir frá aðstandendum leikjanna um þetta atriði, sem þó skiptir svo miklu í umgjörð og þróun leikjanna, hvort þeir verði skemmtilegir eða leiðinlegir á að horfa.
Hér er ég að tala um dómgæsluna í úrslitakeppninni og þá sérstaklega í lokakaflanum þegar bestu dómarar landsins dæmdu leiki bestu liða landsins.
Það var afar ánægjulegt að hvergi heyrðist múkk um störf dómaranna. Það þýðir aðeins eitt, þeir hafa staðið sig vel að mati allra þeirra sem komu nálægt leikjunum.
Það er ástæða til að minnast á þennan þátt því ef hann er í ólagi, getur hann eyðilagt alla vinnu sem fram fer til að gera körfuboltanum eins hátt undir höfði og mögulegt er.
Þegar dómgæslan er í lagi, ég tala nú ekki um frábær, "þá heyrist ekki rassgat" eins og stuðningsmenn Íslandsmeistaranna hafa sungið.
Það eru ekki margar íþróttagreinar sem geta státað af því að fram fari hver úrslitaleikurinn á fætur öðrum án þess að dómarar séu í aðalhlutverki í fjölmiðlum, hjá þjálfurum, leikmönnum, aðstandendum liðanna og áhorfendum. Þeir eru skammaðir fyrir afdrifarík mistök, séu á móti öðru liðinu, ekki hlutlausir osfrv. osfrv.
Það hafa orðið miklar framfarir í körfuknattleik undanfarin ár á öllum stigum íþróttarinnar. Ljóst er að bestu dómararnir hafa ekki setið eftir í þeirri þróun.
Pétur Hrafn Sigurðsson
formaður körfuknattleiksdeildar Breiðabliks
Mynd: Ólafur Rafnsson



