08:30:51
Cleveland Cavaliers tók afgerandi forystu í einvíginu gegn Detroit Pistons með sigri í nótt og eru þeir nú búnir að vinna alla þrjá leikina og þurfa aðeins einn sigur í viðbót. Á meðan unnu Houston Rockets sigur á Portland Trail Blazers og Philadelphia vann Orlando. Houston og Philadelphia eru því bæði með 2-1 forskot í sínum rimmum.
Cleveland þurfti að hafa meira fyrir sigri sínum í nótt en áður. Detroit spiluðu af mikilli hörku og það var ekki fyrr en í fjórða leikhluta sem LeBron James náði að keyra sína menn áfram á 18-2 kafla sem gerði út um leikinn og einvígið í leiðinni. Lokatölur voru 68-79, þar sem James var með 25 stig, 11 fráksöst og 9 stoðsendingar. Hjá Detroit var Rip Hamilton stigahæstur með 15 stig.
Orlando Magic ætlar ekki að ná að fylgja eftir góðum árangri í deildarkeppninni og töpuðu í nótt fyrir Philadelphia 76ers, 96-94, þar sem hinn ungi Thaddeus Young tryggði sigurinn með sniðskoti 2 sek fyrir leikslok.
Dwight Howard fór fyrir sínum mönnum eins og fyrri daginn og skoraði 36 stig og tók 11 fráköst. Hann fékk hins vegar litla hjálp frá félögum sínum og sagði Stan Van Gundy, þjálfari Orlando, að þeir hefðu verið heppnir að vera inni í leiknum undir lokin. Hjá Sixers var Andre Iguodala stigahæstur með 29 stig og Andre Miller var með 24.
Eftir stjörnuframmistöðu sem tryggði Portland sigur í örðum leiknum gegn Houston, átti Brandon Roy ekki sjö dagana sæla í nótt þegar Houston unnu góðan sigur, 86-83. Varnarmenn Rockets héldu honum vel niðri og þó að Yao Ming hafi verið vel dekkaður á hinum endanum komust Blazers aldrei í gírinn og Houston héldu frumkvæðinu allan tímann.
Roy var engu að síður stigahæstur Blazers með 19 stig, en Lois Scola fór fyrir Houston í stigaskorun, einnig með 19 stig.
ÞJ



