spot_img
HomeFréttirLakers áfram - Metjöfnun í stórsigri Denver

Lakers áfram – Metjöfnun í stórsigri Denver

08:13:00
LA Lakers eru komnir í undanúrslit Vesturdeildar NBA eftir sigur á Utah Jazz í nótt, 107-96, en þeir unnu einvígið 4-1. Á sama tíma fengu New Orleans Hornets rassskellingu sem lengi verður í minnum höfð þar sem þeir töpuðu fyrir Denver Nuggets með 58 stiga mun, 121-63. Það er metjöfnun frá árinu 1956 þegar Minneapolis Lakers unnu St. Louis Hawks og er erfitt að sjá hvernig Hornets geta risið upp úr slíku tapi, en þeir eru nú undir í einvíginu, 3-1. Loks jafnaði Atlanta metin gegn Miami Heat með góðum útisigri, 71-81.

Nánar um leikina hér að neðan…

Mjög fáir efuðust um að Lakers færu áfram gegn Jazz, en þó var alls ekki hægt að útiloka þá síðarnefndu. Jazz glímdu við mikil meiðslavandræði í allan vetur þar sem margir lykilmenn voru lengi frá, en höfðu skilað sér í tæka tíð fyrir úrslitakeppnina. Þá þarf enginn að velkjast í vafa um það að lið sem Jerry Sloan þjálfar mætir til búið í orrustu í hverjum leik.

Það var það sem hélt þeim inni leiknum í nótt þrátt fyrir að Lakers væru komnir með 22 stiga forskot gáfust þeir aldrei upp og náðu að minnka muninn niður í 6 stig á lokakaflanum áður en Kobe Bryant og LAmar Odom kláruðu leikinn endanlega. Þó sigur hafi unnist í fimm leikjum eru hins vegar nokkur spurningarmerki sett við varnarleik Lakers sem hefur ekki verið í besta móti, en það mætti mögulega skrifa á einbeitingarleysi gegn veikari andstæðingi. Lakers mæta sigurvegaranum úr rimmu Houstron og Portland, en þar stendur Houston betur að vígi og hlýtur það að vera fagnaðarefni fyrir Lakers því þeir hafa átt í erfiðleikum með Portland síðustu misseri.

Kobe skoraði 31 stig í leiknum, Odom 25 auk þess sem hann tók 15 fráköst og Pau Gasol bætti við 17 stigum og 11 fráköstum.

Hjá Jazz var Paul Millsap stigahæstur með 16 stig og Deron Williams og Andrei Kirilenko voru með 14 hvor.

Denver Nuggets komu nærri því að leika óaðfinnanlega þegar New Orleans voru jarðaðir á heimavelli sínum. Þegar fjallað er um 58 stiga sigur þarf ekki að fjölyrða með framgang leiksins, en ágætis vísbending um hvernig þetta fór eins og það fór má sjá í því að Denver hitti úr um 57% skota sinna og Hornets úr 32%. Stjörnuleikmaðurinn Chris Paul var með 4 stig og 6 stoðsendingar í þessum versta leik ferils síns.

Carmelo Anthony var með 26 stig fyrir Denver, Chauncey Billups 17 og Linasz Kleiza var með 14. Hjá Hornets var David West með 14 stig.

Atlanta Hawks sýndu að þeir eiga sér enn von á útivöllum þegar þeir lögðu Miami Heat á heimavelli sínum en þetta var fyrsti útisigur Hawks í úrslitakeppni í 12 ár.

Leikurinn var harður og einkenndist af mikilli baráttu, en Dwayne Wade, stigakóngur NBA, var plagaður af bakmeiðslum sem héldu aftur af honum. Miami byrjaði ekki gæfulega þar sem þeir lentu 21 stigi undir í fyrri hálfleik, en góður 19-2 kafli fyrir hálfleik gerði leikinn spennandi á ný. Þar munaði mestu um framlag James Jonesm, sem skoraði 10 stig á 41 sekúndu, þar af 8 á 11 sekúndum þegar hann fékk, og kláraði, tvö tækifæri á fjögurra stiga sókn, þ.e. 3ja stiga karfa auk vítaskots.

Þrátt fyrir mikinn hamagang í seinni hálfleik var munurinn aldrei minni en þrjú stig og Atlanta halda heim á leið í góðri stöðu.

Stigahæstur hjá Atlanta var Mike Bibby með 15 stig, en Íslandsvinurinn Zaza Pachulia átti stórleik af bekknum þar sem hann skoraði 12 stig og tók 18 fráköst. Hjá Heat var Wade samt stigahæstur með 22 stig, Jermaine O'Neal var með 20 og fyrrnefndur Jones var með 19.

Tölfræði leikjanna

ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -