10:42:17
Þeir Derek Fisher hjá LA Lakers og Rafer Alston hjá Orlando Magic verða fjarri góðu gamni í næstu leikjum liðanna því að þeir voru báðir dæmdir í eins leiks bann fyrir háttarlag sitt í síðasta leik.
Rafer Alston sá sig knúinn til að slá Boston-manninn Eddie House léttu höggi í hnakkann og verður skarð fyrir skildi hjá Magic í næsta leik því þeir eiga ekki úr mörgum leikstjórnendum að spila.
Derek Fisher var hins vegar settur í bann fyrir að koma ákveðnum skilaboðum á framfæri til Louis Scola hjá Houstin Rockets. Honum fannst Scola, sem er umtalsvert stærri og meiri um sig en Fisher, vera full frekur til fjörsins undir körfunni og ákvað að veita honum ráðningu. Houston var í sókn og Scola var að stíga út til að setja skrín þegar Fisher keyrir inn í hann og skellir honum í jörðina.
Ron Artest, sem var einnig hent af velli í leik Lakers og Houston, slapp við leikbann.



