09:28:41
Houston Rockets urðu fyrir miklu áfalli í gær þegar kom í ljós að miðherjinn Yao Ming, þeirra helsta stjarna er úr leik næstu 2-3 mánuði vegna sprungu í beini í visntri fæti hans. Houston glíma nú við LA Lakers í undanúrslitum Vesturdeildarinnar og eru undir 2-1.
Yao fór af velli undir lok síðasta leiks og var greinilega kvalinn. Röntgenmyndir leiddu síðan beinsprunguna í ljós og þó hann þurfi ekki að fara í aðgerð er hann ekki í ástandi til að leika. Yao, sem er 229sm á hæð, hefur oft átt við meiðsli að stríða, sérstaklega undir lok leiktíða og hefur t.d. tvisvar misst alfarið af úrslitakeppni. Hann hefur hins vegar verið afar sterkur í úrslitakeppninni í ár þar til þessi ósköp dundu yfir og leidddi sína menn til sigurs gegn Portland og eins og staðan er í rimmunni gegn Lakers var ekkert gefið.
Rick Adleman, þjálfari Houston, sagði að þetta breytti því ekki að hans menn þyrftu að leggja sig fram og vinna eins og lið. „Allir vita hvert hlutverk þeirra er í liðinu og verða að sýna sínar bestu hliðar. Við erum búinr að vinna án lykilmanna í allan vetur og þetta er bara enn eitt dæmið. Maður getur ekki verið að velta sér upp úr því hvern vantar, heldur hverjir eru mættir. Mínir menn trúa því sannarlega að ef við göngum út á völlinn og spilum eins vel og við getum, munum við vinna leiki.“



