08:05:51
Boston Celtics jöfnðuðu metin gegn Orlandi Magic með sigri í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Austurdeildarinnar í nótt, 94-95. Úrslitin réðust með flautukörfu frá Glen Davis eftir jafnan leik þar sem liðin skiptust á að leiða.
Nánar um leikinn hér að neðan…
Boston hóf leikinn betur og sótti fast að körfunni og sótti þannig tvær villur á Dwight Howard snemma í fyrsta leikhluta og náðu frumkvæðinu, en góður kafli frá Magic tryggði þeim forystuna í lok fjórðungsins. Fram að hálfleik var leikurinn hnífjafn og liðin skiptust á að leiða.
Í þriðja leikhluta náði Boston níu stiga forskoti en eftir að Paul Pierce þurfti að fara á bekkinn vegna villuvandræða komst Orlando aftur inn og allt var í járnum eftir það. Rashard Lewis kom Magic einu stigi yfir með tveimur vítaskotum þegar 11 sek voru eftir af leiknum, en það var óvænt hetja, téður Glen Davis, sem bjargaði deginum.
Hann braust í gegnum skrín, fékk boltann frá Pierce og lét svo vaða yfir Lewis sem kom aðvífandi. Skotið smellhitti, flautan gall og þögn sló á áhorfendur í Orlando. Davis, sem hefur staðið sig vel í fjarveru Kevin Garnett, er frekar þekktur fyrir að vera léttur spaugari sem spilar meira með hjartanu en nokkru öðru, en nú virðist hann hafa hjartað á réttum stað og er hetja fyrir vikið.
Stan Van Gundy, þjálfari Magic, tók á sig alla sök fyrir tapið. Hann sagði að sínir menn hefðu gert allt sem fyrir þá var lagt á lokakaflanum, þ.e. að passa að Pirece og Ray Allen fengju ekki skot. Það var ekki nóg að þessu sinni og liðin halda til Boston á ný með tvo sigra hvort í farteskinu.
Pierce var stigahæstur Celtics með 27 stig, Davis og Rajon Rondo voru með 21 hvor auk þess sem Rondo, smávaxinn leikstjórnandi, tók 14 fráköst. Þá tgerðu Allen og miðherjinn Kendrick Perkins 12 stig hvor og Perkins tók auk þess 13 fráköst og varði 5 skot.
Hjá Magic var Howard með 23 stig og 17 fráköst, Lewis var með 22 og þeir Hedo Turkoglu og Mickael Pietrus voru með 12 stig hvor.
Molar:
– Boston fékk aðeins 2 stig af bekknum í öllum leiknum og hitti bara úr einni þriggja stiga körfu allan leikinn.
– Perkins kenndi sér meins í öxl eftir leikinn og kemur í ljós í dag hvort það sé eitthvað alvarlegt.
-Rajon Rondo, sem er 185sm á hæð, er ótrúlegur frákastari miðað við líkamsvöxt og er nú hársbreidd frá því að vera með þrennu að meðaltali í leik í úrslitakeppninni. Hann er með 18 stig, 11 stoðsendingar og 9 fráköst að meðaltali í 10 leikjum.
Tölfræði leiksins
ÞJ



