13:56:21
Mark Cuban, hinn litríki eigandi Dallas Mavericks, hefur beðið Kenyon Martin, framherja Denver Nuggets, og fjölskyldu hans afsökunar fyrir að hafa móðgað móður leikmannsins eftir leik Dallas og Denver á laugardaginn.
Þar viðraði hann þá skoðun sína að leikmenn Denver væru fautar og hreytti að móður Martins að sonur hennar væri engin undantekning.
Nánar hér að neðan…
Þau orðaskipti urðu að miklu fjölmiðlafári sem var hérumbil farið úr böndunum í gærkvöldi þegar Dallas sigraði á heimavelli sínum í fjórða leik liðanna. Á meðan leiknum stóð höfðu nokkrir misvel gefnir stuðningsmenn heimaliðsins ónáðað móður Martins sem og unnustur hans og annarra leikmanna Dallas. Það var ekki til að bæta úr málunum, sem voru sífellt að færast á hærra stig, og Martin brást við með því að láta fúkyrðaflaum vaða yfir ólátabelgina á pöllunum.
Þegar leiknum lauk lenti Martin og Cuban saman á gólfinu og á leiðinni af velli lét leikmaðurinn nokkur vel valin orð, sem vart er hægt að hafa eftir, falla til óstýrilátra áhorfenda og undirstrikaði boðskapinn með því að sýna þeim löngutöng.
Ekki var það til að bæta ástandið að Martin er sjálfur uppalinn í Dallas.
Cuban hefur nú, þó fyrr hefði verið, beðið alla þá sem hann hefur sært, afsökunar á framferði sínu og áhorfenda í Dallas og vill fyrir alla muni bera klæði á vopnin og hefur þess vegna boðið fjölskyldu Martins að gista heima hjá sér, eða á hóteli á sinn kostnað, þegar (og ef) Denver snýr aftur til Dallas.
Á bloggsíðu Cubans segir: „Þess vegna vildi ég biðja þig og móður þína afsökunar á þeim ummæalum sem ég lét falla. Ég hefði ekki átt að segja neitt og hagaði mér ekki sem skildi. Vonandi tekurðu þessa afsökunarbeiðni mína til greina svo við getum snúið okkur að öðrum málum.“
Ekki hefur enn borist svar úr herbúðum Nuggets.
ÞJ



