14:20
{mosimage}
(Hildur Sigurðardóttir)
Hildur Sigurðardóttir leikmaður Subwaybikarmeistara KR hefur ákveðið að taka sér frí frá íslenska kvennalandsliðinu í sumar eða í það minnsta fram yfir smáþjóðaleikana. Hildur sagðist í samtali við Karfan.is vera að vinna í því að ná sér alheilli af meiðslum en kvaðst myndu endurskoða landsliðsafstöðu sína að loknum smáþjóðaleikunum á Kýpur í júní.
,,Fyrri part vetrar á síðustu leiktíð var ég ekki að spila neitt brjálæðislega vel, ég var þreytt og meidd eftir sumarið og ákvað þá að taka mér frí þetta sumarið. Undir lok síðasta tímabils var ég reyndar komin í fínt stand en ákvað að halda mig við þessa ákvörðun og hvíla mig á landsliðsverkefnum,“ sagði Hildur sem hefur síðasta áratuginn eytt sumrum sínum með kvennalandsliðinu.
,,Ég verð ekki og hef ekki verið með í undirbúningi fyrir smáþjóðaleikana en að þeim loknum ætla ég að endurskoða afstöðu mína, ég ákvað einfaldlega að hvíla mig og byggja mig upp og það er einmitt það sem er í gangi hjá mér núna,“ sagði Hildur sem er 28 ára en hefur fjarri því fengið nóg af körfubolta.
,,Ég er bara í smá pásu núna og hún er liður í því að ná skrokknum alveg heilum, ég er alls ekki búin að fá nóg af körfubolta en það er miklu meira gaman af þessu þegar maður er alveg heill og í fínu standi,“ sagði Hildur sem mun reyna fyrir sér í frjálsum íþróttum í sumar en sú iðja hennar er liður í því að koma sér í gott líkamlegt form og ná skrokknum í lag. Hildur lék 13 deildarleiki með KR og í þeim gerði hún að jafnaði 15,3 stig í leik.
Vissulega er hér um að ræða töluverða blóðtöku fyrir íslenska landsliðið. Á dögunum greindi Karfan.is frá því að Pálína Gunnlaugsdóttir, varnarbakkarinn grimmi, væri frá út þetta ár sökum barnsburðar og nú er Hildur Sigurðardóttir fjarri góðu gamni. Nýji landsliðsþjálfarinn Henning Henningsson sér því fram á að vera án tveggja af sterkustu bakvörðum landsins.
Leikir kvennaliðs Íslands á smáþjóðaleikunum á Kýpur:
2. júní: Ísland-Malta
4. júní: Ísland-Lúxemburg
5. júní: Kýpur-Ísland
Mynd: [email protected]



