
Einkennilega staða hefur komið upp í kjölfar þess að Denver eru komnir svo langt í úrslitakeppninni. Á mánudaginn kemur munu Lakers koma í heimsókn til Denver og spila gegn heimamönnum í Pepsi Center. En það eru hinsvegar WWE (World Wrestling Entertainment) menn sem eru einnig að mæta í sömu höll og halda sýningu.
Vince Macmahon er framkvæmdastjóri WWE sem er þekktur fyrir að vera harður í horn að taka sagðist ekki ætla að láta körfuna vaða yfir sig á skítugum skónum. „Þeir geta ekkert hent okkur bara út. Ég mun hlaða mína trukka af okkar dóti og við munum mæta eins og áætlað var.“ sagði MacMahon kokhraustur við fjölmiðla vestra. WWE hafa nú þegar selt um 10 þúsund miða á viðburð sinn og búast við að uppselt verði í höllina en þeir bókuðu höllina þann 15. Ágúst síðastliðin. „Við höfum gert Nuggets liðinu fyllilega ljóst að ekki er hægt að breyta dagsetningunni á leiknum. En við höfum hinsvegar fulla trú á að WWE og Nuggets muni leysa þetta mál á farsælan hátt“ sagði Mike Bass, talsmaður NBA deildarinnar í samtali vestra. Spurninginn er því hvernig mun Denver Nuggets ná að „glíma sig“ úr þessari klemmu sem upp er komin en þetta er í fyrsta skipti síðan 1985 sem að liðið kemst í úrslit vesturdeildarinnar.



