14:30
{mosimage}
(Árni segir skilið við íslenska boltann og heldur til Alabama í ágúst)
Þjarkurinn Árni Ragnarsson heldur síðla sumars út til Bandaríkjanna þar sem hann hefur fengið fullan skólastyrk til náms við University of Alabama Huntsville. Vissulega mikil blóðtaka fyrir FSu í Iceland Express deild karla en draumur að rætast hjá Árna sem hefur undanfarin tímabil verið einn af lykilmönnum FSu. Karfan.is ræddi við Árna um væntanlega Bandaríkjaför og kvaðst hann himinlifandi með niðurstöðuna.
,,Takmarkinu er náð og ég er þvílíkt ánægður með þetta. Þetta var fyrsta stóra markmiðið mitt en ég er reyndar með mörg markmið. Ég var búinn að setja mér mörg markmið fyrir löngu og er með markmið fyrir hvert einasta skólaár þarna úti,“ sagði Árni sem er mjög skipulagður þegar kemur að körfuboltanum. ,,Þetta er einn af þeim hlutum sem mér hefur verið kenndur hjá FSu og bý voðalega vel að því og ég væri reyndar ekki að fara til Bandaríkjanna nema fyrir tilstilli FSu,“ sagði Árni sem hefur síðustu ár farið mikinn á Selfossi undir stjórn Brynjars Karls þjálfara liðsins.
Skólinn sem Árni fer í heitir University of Alabama Huntsville og leikur í 2. deild NCAA háskóladeildarinnar. Árni heldur til Bandaríkjanna þann 1. ágúst n.k. en hann mætir aðeins áður en skólinn byrjar til þess að koma sér inn í aðstæður og æfa með skólaliðinu.
,,Ég mæli með því að sem flestir reyni að komast út í nám til Bandaríkjanna því fleiri sem fara í háskólaboltann því fleiri fara í atvinnumennsku og þannig eignumst við sterkara landslið, þetta tel ég vera leiðina að árangri og besta leiðin til að bæta sig er að vera í jákvæðu umhverfi og að því leyti líst mér vel á þann stað sem ég er að fara á,“ sagði Árni sem er spenntur fyrir umhverfinu úti en segist þó yfirgefa góðar aðstæður á Selfossi.
,,Það var líka allt til staðar hjá FSu. Núna er ég að fara í nýtt umhverfi sem ég býst við að sé sterkara og maður verður að æfa með hrikalega sterkum leikmönnum,“ sagði Árni sem vildi að lokum koma á framfæri þakklæti til handa þjálfara sínum Brynjari Karli og Sævari Sigurmundssyni:
,,Án þeirrar aðstoðar væri ég ekki á leiðinni til Alabama,“ sagði Árni og ljóst að skarð hans verður vandfyllt í herbúðum FSu.



