10:28
{mosimage}
Denver Nuggets gerðu sér lítið fyrir og unnu leik tvö í úrslitaseríu vesturdeildarinnar, 106-103, en fyrir leikinn höfðu Denver tapað fyrir Lakers í 11 leikjum í úrslitakeppninni í röð. Carmelo Anthony fór fyrir sínum mönnum og skoraði 34 stig ásamt því að hirða 9 fráköst. Chauncey Billubs skoraði 27 stig og Linas Kleiza skoraði 16 stig af bekknum fyrir Denver. Hjá Lakers var Kobe Bryant stigahæstur að vanda með 32 stig en næstir voru Trevor Ariza með 20 stig og Pau Gasol svaraði gagnrýninni eftir fyrsta leikinn með 17 stig og 17 fráköst.
Heimamenn í Los Angeles byrjuðu annan leikinn allt öðruvísi en þann fyrsta, þeir náðu forustunni strax í fyrsta leikhluta og voru mest 10 stigum yfir á tímabili. Þeim tókst að stoppa Carmelo Anthony sem skoraði aðeins 2 stig í fyrsta leikhluta, 14 stigum minna en í fyrsta leiknum. Leikmenn Denver voru hins vegar ekki á því að gefast upp og náðu að minnka muninn niður í 1 stig áður en flautað var til hálfleiks. Það er óhætt að segja að mestu hafi munað um framlag Linas Kleiza sem kom virkilega sterkur inn í lið Denver í nótt.
Leikurinn var svo hnífjafn allan seinni hálfleikinn en Liðin skiptust á að taka forustuna. Gestirnir frá Denver höfðu hins vegar betur á lokamínútunum og jöfnuðu þar með metin, 1-1. Liðin mætast næst á laugardaginn í Denver og því óhætt að segja að Denver Nuggets hafi óvænt tekið frumkvæðið í þessari seríu, en þeir eiga næstu tvo leiki á heimavelli.



