08:00
{mosimage}
Stórleikur Lebron James virtist lítil áhrif hafa á leikmenn Orlando Magic sem nældu sér í 2-1 forustu í einvíginu í nótt með nokkuð öruggum sigri á Cleveland, 99-89. Orlando byrjuðu leikinn fantavel og höfðu náð góðu forskoti strax í fyrsta leikhluta. Cleveland svaraði fyrir sig í öðrum leikhluta en eftir það hafði Orlando forustuna allt til loka leiksins. Leikmenn Orlando sýndu það í nótt að þeir láta stórstjörnur á borð við Lebron James ekki trufla sig mikið en hann skoraði 41 stig í nótt og gaf 9 stoðsendingar. Heimamenn svöruðu því einfaldlega með því að svo gott sem loka á liðsfélaga hans í vörninni, með varnarmann ársins í broddi fylkingar, en Cleveland liðið hitti aðeins ca. 37% utan af vellinum í dag, sem verður seint talið meistara-hittni.
Leikurinn í nótt var spilaður af mikilli hörku og höfðu dómararnir í nóg að snúast því þegar leiktíminn rann út höfðu þeir flautað 58 villur og tvær tæknivillur. Það hefði því varla getað komið á betri tíma hjá Dwight Howard að nýta 14 af 19 vítaskotunum sínum en hann hefur einmitt ekki verið þekktur fyrir það góða nýtingu.
Dwight Howard fór fyrir sínum mönnum í sóknarleiknum og skoraði 24 stig ásamt því að hirða 9 fráköst í leiknum. Næstu menn voru Rafer Alston með 18 stig og Mickael Pietrus með 16 stig. Eins og fyrr segir var Lebron James algjör yfirburðamaður í liði Cleveland með 41 stig og 9 fráköst en næstir komu Mo Williams með 15 stig og Delonte West með 12 stig, en þetta voru einu leikmenn Cleveland sem komust í tveggja stafa tölu.
Leikmenn Orlando geta því komið sér í ansi vænlega stöðu á aðfaranótt miðvikudags þegar þeir eiga sinn seinni heimaleik áður en haldið er aftur til Cleveland.



