spot_img
HomeFréttirBologna vilja Ragnar í heimsókn

Bologna vilja Ragnar í heimsókn

17:15
{mosimage}

(Ragnar Ágúst fyrir miðju ásamt tveimur góðum félögum úr sigurliði U 18 á NM)

Miðherjinn stæðilegi Ragnar Ágúst Nathanaelsson frá Hveragerði hefur vakið athygli erlendra stórliða og nú er í undirbúningi að Ragnar fari til Ítalíu en honum var boðið til reynslu hjá La Fortezza Bologna. Ragnar lék sína fyrstu landsleiki á dögunum þegar U 18 ára landslið Íslands varð Norðurlandameistari eftir frækinn sigur á Finnum í úrslitaleik mótsins.

Ingi Þór Steinþórsson var þjálfari U 18 ára liðsins á NM í Svíþjóð en þaðan voru fulltrúar frá Bologna sem höfðu samband við hann og lýstu áhuga á því að fá Ragnar í heimsókn til liðsins. ,,Það er verið að vinna í málinu og við erum að skoða hvað sé honum fyrir bestu en spilin eru alfarið á hendi Ragnars. Hann var að leika sína fyrstu landsleiki núna úti á NM og framfarirnir hjá honum síðustu ár eru hreint magnaðar,“ sagði Ingi Þór í samtali við Karfan.is.

Ragnar lék 17 deildarleiki með Hamri sem vann 1. deildina á síðustu leiktíð en í þessum 17 deildarrleikjum lék Ragnar að jafnaði í tæpar 18 mínútur þar sem hann var með 3,0 stig og 3,9 fráköst að meðaltali í leik.

,,Ragnar er strákur sem þarf að komast í stórt verkefni þar sem hugsað er um hann allan sólarhringinn. Það voru reyndar fleiri lið sem sýndu honum áhuga en Bologna buðu honum að koma út og vilja fá hann til sín á næstu tveimur vikum,“ sagði Ingi Þór en hvað segir kappinn sjálfur um alla þessa athygli?

,,Ég er spenntur fyrir þessu,“ sagði Ragnar Ágúst í samtali við Karfan.is. ,,Hamarsmönnum líst líka vel á þetta og sem dæmi fór ég til Duke háskólans í fyrrasumar með Ágústi Björgvinssyni og mér leist líka mjög vel á Bandaríkin,“ sagði Ragnar en eins og þegar hefur komið fram er málið á vinnslustigi.

,,Ég er búinn að vera í miklu prógrammi hjá Ágústi og honum leist mjög vel á þetta hjá Bologna og hann styður við bakið á mér og er duglegur að fara yfir málin með mér,“ sagði Ragnar sem verður 18 ára í ágúst á þessu ári. ,,Ég fer varlega í þetta og vil alls ekki vera að hlaupa út í eitthvað en á meðan verið er að vinna í málinu þá bara verð ég í botnlausum æfingum,“ sagði Ragnar og gangi allt eftir er stutt þangað til hann heimsækir Ítalíu.

Þess má til gamans geta að núna kl. 18:00 mætast Benetton Treviso lið Jóns Arnórs Stefánssonar og La Fortezzaa Bologna í oddaleik um sæti í undanúrslitum ítölsku deildarinnar. Því er hugsanlega hægt að varpa því fram að um Íslendingaslag sé að ræða þar sem Bolognamenn vænta heimsóknar frá Ragnari á næstunni.

[email protected]
Myndir:
[email protected]

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -