21:54
{mosimage}
(Jóhann Árni valdi heimahagana)
Njarðvíkingar hafa fengið frábæran liðsstyrk fyrir komandi tímabil í Iceland Express deild karla en á dögunum var gengið frá því að fjórir uppaldir Njarðvíkingar snúa aftur heim og fylgja þar í fótspor Páls Kristinssonar sem kom heim á dögunum eftir fjögurra ára dvöl í Grindavík. Leikmennirnir sem um ræðir eru Guðmundur Jónsson, Jóhann Árni Ólafsson, Kristján Rúnar Sigurðsson og Rúnar Ingi Erlingsson. Þetta kemur fram á heimasíðu Njarðvíkur, www.umfn.is
Jóhann Árni Ólafsson er 23ja ára bakvörður/framherji en hann lék með Proveo Merlins Crailsheim í Pro B í Þýskalandi í vetur en hefur annars spilað allan sinn feril fyrir UMFN. Jóhann gerði 11,1 stig á leik í vetur en tók einnig 4,1 frákast, gaf 2,4 stoðsendingar og stal 1,0 bolta á leik. Lið Jóhanns vann Pro B deildina og var Jóhann í byrjunarliði þeirra í allan vetur. Jóhann er í íslenska landsliðinu sem leikur á Smáþjóðaleikunum þessa dagana. Jóhann Árni semur til 2ja ára.
(innskot Karfan.is í fréttina á heimasíðu UMFN)
Á dögunum var greint frá því að Jóhann Árni hugðist semja við Keflavík og leika í Toyotahöllinni á næstu leiktíð en með þessari yfirlýsingu frá UMFN er ljóst að ekkert verður af því og Jóhann verður því áfram í grænu á Íslandi. (innskoti lýkur)
{mosimage}
(Guðmundur Jónsson)
Guðmundur Jónsson er 25 ára bakvörður sem lék með Þór Akureyri sl. vetur en hefur að öðru leyti spilað allan feril sinn með UMFN. Guðmundur átti flott tímabil með Þórsurum þar sem hann gerði 16,5 stig á leik, tók 4,5 fráköst, gaf 2,7 stoðsendingar og stal 2,3 boltum. Guðmundur var valinn besti leikmaður Þórs á lokahófi þeirra eftir tímabilið en hann átti virkilega gott tímabil í vetur. Guðmundur semur til 2ja ára.
{mosimage}
(Kristján Rúnar Sigurðsson)
Kristján Rúnar Sigurðsson er 23ja ára bakvörður en hann lék með Breiðablik síðustu tvö árin en hafði fyrir þann tíma leikið allan sinn feril með UMFN. Kristján var lykilmaður í liði Breiðabliks í vetur sem náði óvænt áttunda sætinu í deildinni. Hann skoraði 10,7 stig, tók 2,4 fráköst, gaf 1,5 stoðsendingu og stal 1,0 bolta á leik. Fyrra tímabil Kristjáns var hann stigahæsti leikmaður liðsins er þeir unnu 1. deildina með yfirburðum og var hann í fimm manna úrvalsliði mótsins og auk þess valinn besti leikmaður deildarinnar. Kristján semur til 3ja ára.
{mosimage}
(Rúnar Ingi Erlingsson)
Rúnar Ingi Erlingsson er tvítugur leikstjórnandi en hann lék með Breiðablik síðustu tvö árin eins og Kristján en hafði annars spilað allan sinn feril fyrir UMFN. Rúnar Ingi átti mjög got tímabil á sl. vetri þar sem hann gerði 9,7 stig, gaf 5,0 stoðsendingar, tók 3,6 fráköst og stal 1,2 boltum. Hann var valinn besti ungi leikmaður Iceland Express deildar karla á lokahófi KKÍ í byrjun maí og var jafnframt í 22ja manna landsliðshópi Íslands. Rúnar Ingi var auk þess besti leikmaður Blika á lokahófi í 1. deildinni fyrir ári síðan og var valinn í úrvalslið mótsins á lokahófi KKÍ. Rúnar Ingi semur til 3ja ára.
{mosimage}
(Páll Kristinsson)
Páll Kristinsson er 32ja ára framherji og gríðarlega reyndur leikmaður. Páll hefur undanfarin fjögur ár leikið með Grindavík en á fyrir þann tíma langan feril að baki með UMFN þar sem hann er uppalinn. Páll gerði 9,4 stig á leik í vetur, tók 4,9 fráköst, gaf 1,3 stoðsendingar og stal 1,2 boltum. Páll hefur unnið þrjá Íslandsmeisaratitla með UMFN sem og þrjá bikarmeistaratitla en hann varð einnig bikarmeistari 2006 með Grindavík. Páll semur til 2ja ára.
Allir þessir drengir hafa verið gríðarlega sigursælir í yngri flokkum UMFN og Guðmundur og Jóhann hafa þegar verið í stórum hlutverkum í meistaraflokki félagsins á síðustu árum og Kristján og Rúnar eiga einnig feril að baki með meistaraflokknum. Páll færir liðinu mikla reynslu og hæð sem liðið skorti. Þeir snúa nú heim reynslunni ríkari og félagið fagnar gríðarlega komu þessara drengja og býður þá velkomna heim.



