spot_img
HomeFréttirJóhanna í Vesturbæinn

Jóhanna í Vesturbæinn

15:09
{mosimage}

(Jóhanna Björk Sveinsdóttir)

Enn berast tíðindi af leikmannamarkaðinu í kvennakörfunni en Jóhanna Björk Sveinsdóttir hefur ákveðið að söðla um og mun leika með Subwaybikarmeisturum KR á næstu leiktíð. Jóhanna hefur leikið fyrir Hamar allt frá 11 ára aldri eða frá því hún hóf að stunda skipulagt drippl í Hveragerði undir stjórn Daða Steins Arnarssonar.

,,Þetta leggst vel í mig. Það er spennandi að breyta til enda er ég búin að vera í Hamri síðan ég var 11 ára gömul,“ sagði Jóhanna sem er 20 ára gömul og gerði 4,1 stig að meðaltali í leik með Hamri í Iceland Express deild kvenna á síðustu leiktíð. Jóhanna mun næsta vetur stunda nám við HR en hún er óákveðin hvaða nám verður fyrir valinu.

,,Ég held að KR geti gert atlögu að flestum titlum á næstu leiktíð, það hlýtur að vera planið,“ sagði Jóhanna létt í bragði og sagði vissulega gaman fyrir sitt gamla félag Hamar að fá sterka leikmenn til sín á borð við Kristrúnu Sigurjónsdóttur, Sigrúnu Ámundadóttur og Guðbjörgu Sverrisdóttur.

,,Ég er að fara í vinningsliðið, við vinnum bara Hamar,“ sagði Jóhanna í léttum dúr en æfingar eru að skríða af stað hjá KR þessi misserin. ,,Ég er búin að mæta á nokkrar æfingar og búin að hitta Benna svo nú er bara stefnan að bæta sig sem leikmaður og ná framförum,“ sagði Jóhanna en verður hún í landsliðsverkefnum í sumar?

,,Ég fór ekki til Kýpur en ég svara kallinu ef Henning hóar í mig,“ sagði Jóhanna sem átti sitt fyrsta landsliðssumar árið 2008 með A-landsliði Íslands.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -