spot_img
HomeFréttirYao til Cavs?

Yao til Cavs?

 19:43:32

Sú saga gengur nú fjöllum hærra í NBA að Cleveland Cavaliers hafi hug á að fá til sín miðherjann og ofurstjörnuna Yao Ming.

 

LeBron James og félagar náðu ekki að fylgja eftir frábærri frammistöðu í deildarkeppninni og fyrstu tveimur umferðunum í úrslitakeppninni og féllu úr leik í úrslitum Austurdeildarinnar gegn Orlando Magic. Nú, til að tryggja það að James fari ekki að hugsa sér til hreyfings, eru forráðamenn Cavs víst að hugsa með alvöru til þess að fá aðra stórstjörnu til að létta álaginu af honum. Fyrst var talið að þeir ætluðu að fá Shaquille O‘Neal til sín í skiptum fyrir Ben Wallace og jafnvel Sasha Pavlovic, en nú er Yao talinn líklegri.

 

Nánar hér að neðan…

 

Það sem bætir enn í orðróminn er það að nýlega keypti hópur kínverskra fjárfesta hlut í liðinu. Yao, sem getur fengið sig lausan frá Houston eftir næsta tímabil, yrði nær örugglega nóg til að telja James á að gefa Cavs annað tækifæri á að skapa meistaralið í kringum hann, því að þrátt fyrir ómælda hæfileika sem einstaklingur verður hann aldrei talinn með bestu leikmönnum allra tíma fyrr en hann fer að safna meistarahringum.

 

Yao sjálfur vildi lítið gefa út um framtíð sína en sagði þó í viðtali við sjónvarpsstöð í heimalandi sínu nýlega að hann væri ekki viss hvert framhaldið yrði. „Ég hef verið hjá Houston í langan tíma og þykir vænt um félagið. Aukinheldur nutum við nokkrar velgengni í vetur og það gefur mér von um bjartari daga.“

 

Houston komust í aðra umferð úrslitakeppninnar í fyrsta skipti frá dögum Hakeem Olajuwon og voru ekki langt frá því að slá verðandi meistara LA Lakers úr leik, en Yao meiddist enn og aftur og þó félagar hans hafi barist eins og ljón var getumunurinn á liðunum einfaldlega of mikill.

 

Það eina sem gæti sett spurningamerki  við þessa ráðstöfun fyrir Cavs er einmitt heilsufar risans góðlega, en hann hefur verið mikið frá síðustu fjögur árin. Það gæti þó breyst ef hann væri ekki aðalmaðurinn í liðinu og gæti sparað sig þar til á reyndi.

Hvað verður mun væntanlega ekki ráðast fyrr en að loknu næsta tímabili þegar einhver æsilegasta samningahrina allra tíma fer í gang, því margar af stærstu stjörnum deildarinnar verða með lausa samninga næsta sumar.

Mynd/AP

ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -