20:43:54
Joe Dumars, framkvæmdastjóri Detroit Pistons, er formlega kominn í endurreisnarham en hann rak þjálfara liðsins, Michael Curry, í dag. Curry var ráðinn þjálfari þegar Flip Saunders yfirgaf liðið í fyrrasumar, en þetta var hans fyrsta starf sem aðalþjálfari NBA-liðs.
Nánar hér að neðan…
Curry þótti ekki hafa góð tök á Detroit liðinu og missti alla tiltrú leikmanna með vingulshætti við uppröðun byrjunarliðsins. Detroit rétt slapp inn í úrslitakeppnina eftir kaflaskipt tímabil en var slegið út af Cleveland Cavaliers.
Þrátt fyrir að gamla Pistons hetjan og baráttujaxlinn Bill Laimbeer hafi nýlega sagt starfi sínu hjá WNBA liðinu Detroit Shock eftir að hafa unnið þrjá meistaratitla með liðinu, er hann ekki talinn líklegur til að hljóta náð fyrir augum síns gamla liðsfélaga.
Doug Collins, sem m.a. þjálfaði lið Detroit fyrir rúmum áratug er talinn líklegastur en hann hefur unnið við sjónvarp síðan honum var sagt upp hjá Washington Wizards árið 2003.
Dumars er í öfundsverðri stöðu því að hann hefur svigrúm fyrir 20 milljóna dala samninga sem ætti að setja Detroit í góða stöðu þar sem nokkrir bitastæðir leikmenn eru á lausu. Þar á meðal eru Carlos Boozer, Charlie Villenueva, Hedo Turkoglu, Ben Gordon og David Lee.
Mynd/AP
ÞJ



