Tveir leikir fóru fram í 8-liða úrslitum á Evrópumeistaramóti karla í Póllandi í dag. Frakkar töpuðu sínum fyrsta leik á mótinu og eru úr leik en munu leika um sætisröðun líkt og Rússar sem lágu gegn Serbum 68-79. Með þessum úrslitum dagsins er óhætt að segja að Öskubuskurnar séu úr leik þar sem ungt lið Rússa hefur vakið mikla athygli enda leika þeir án fjölmargra lykilleikmanna en Frakkar komust inn á EM eftir umspil við Belga og voru ósigraðir í sex leikjum fyrir daginn í dag.
Pau Gasol sýndi hvers hann er megnugur í liði Spánar og leiddi sína menn til sigurs með 28 stig, 9 fráköst og 3 varin skot. Í liði Frakka var Ronny Turyaf stigahæstur með 12 stig. Enginn annar franskur leikmaður náði að gera 10 stig eða meira í kvöld.
Rússar veittu andstæðingum sínum örlítið meiri mótspyrnu en Frakkar gerðu en Rússar máttu þó þola ósigur 79-68 gegn Serbum. Hjá Serbunum var Uros Tripkovic stigahæstur með 18 stig en hann leikur með Partizan Beograd í heimalandi sínu. Hjá Rússum var Vitalii Fridzon með 15 stig.
8-liða úrslitunum lýkur á morgun þar sem mætast Tyrkland og Grikkland og svo Slóvenía og Króatía. Frakkar munu svo mæta tapliðinu úr leik Grikka og Tyrkja og Rússar munu mæta tapliðinu úr viðureign Slóvena og Króata í leikjum um endanlega sætaröðun á mótinu.
Texti: Jón Björn Ólafsson, [email protected]
Mynd: FIBA Europe



