Nú tökum við púlsinn í herbúðum Valskvenna en þar er við stjórnartaumana Ari Gunnarsson sem tók við liðinu í sumar eftir að hafa sagt skilið við Hamarskonur í Hveragerði. Nokkuð af nýjum leikmönnum hafa gengið til liðs við Val en Valskonur verða án Ara í fyrsta leik tímabilsins þar sem kappinn má taka út leikbann.
,,Ég á nú samt von á því að ná öllum leikjum með Val í vetur, ég haga mér alltaf vel en það eru bara dómararnir sem haga sér illa,“ sagði Ari kátur í bragði þegar Karfan.is sló á þráðinn. Þrátt fyrir gamansemina í Ara þá mátti hann sætta sig í sumar við að missa frá sér landsliðsmiðherjann Signýju Hermannsdóttur sem gekk til liðs við KR en Ari hefur þó fengið nokkra nýja leikmenn í Vodafonehöllina.
,,Þetta er búið að ganga upp og ofan hjá okkur en ég er nýkominn með allan hópinn saman svo þannig séð erum við eitthvað á eftir áætlun. Við höfum þó fengið eitthvað af viðbótum og sem dæmi kom til okkar Hanna Hálfdánardóttir frá Haukum, Hrund Jóhannsdóttir frá Fjölni og Sigríður Viggósdóttir frá Tindastól,“ sagði Ari en hvað leggur hann upp með fyrir veturinn?
,,Við eigum eftir að púsla okkar hlutum saman og erum á smá byrjunarreit en ég er alveg bjartsýnn eins og alltaf,“ sagði Ari og kvað Val ávallt hafa verið hlaupalið. ,,Við förum ekkert að breyta því en skipulagið hjá okkur verður bara svona sitt lítið af hverju,“ sagði Ari sem er Valsari að upplagi og honum leiðist ekki á heimaslóðum.
,,Það er yndislegt að vera kominn hingað heim, ég náði að spila með Val hérna í nýja ,,gamla“ húsinu, nú er komið nýtt en annars var öll mín tíð t.d. í yngri flokkum í gamla húsinu. Ég fór inn í gamla húsið um daginn og þar var allt nánast ónýtt, það er annað og betra að vera í Vodafonehöllinni og vonandi hjálpar það starfinu okkar til lengri tíma litið. Við erum hér í Val að keppa við stórlið í fótbolta og handbolta um iðkendur en við byggjum á markvissri stefnu til þess að ná starfinu upp hjá okkur,“ sagði Ari á heimaslóðum.



