spot_img
HomeFréttirStefán: Höggið hefur verið mikið

Stefán: Höggið hefur verið mikið

Eins og fram hefur komið er Jón Arnór Stefánsson meiddur og verður frá í 3-4 mánuði samkvæmt frétt á heimasíðu Granda, liðs Jóns á Spáni. Karfan.is setti sig í samband við Stefán Eggertsson föður Jóns Arnórs sem kvaðst lítið vita um málið að svo stöddu en að höggið sem Jón hlaut hafi verið mikið.
,,Það er sprunga í bakinu, eitthvað sem þarf að fá tíma til að gróa. Þetta þarf tíma en hann fer sennilega ekki af stað fyrr en eftir 3-4 mánuði,” sagði Stefán sem er þó búinn að ná smá tali af Jóni.
 
,,Hann bar sig bara eftir atvikum en þetta var leiðindahögg sem hann fékk. Svona er nú bara lífið í þessum bransa en þetta sýnir manni að höggið hefur verið mikið,” sagði Stefán.
 
Góðvinur Karfan.is sem kann sitthvað fyrir sér í spænskunni greindi frá því að á heimasíðu félagsins hefði Granda verið að leika kynningarleik gegn úkraínska liðinu Kihmki og að Jón hefði hlotið meiðslin er hann féll í gólfið. Þá hafi hann einungis verið búinn að leika í 25 sekúndur og var þá borinn af velli.
 
Fréttir
- Auglýsing -