Jakob Sigurðarson var svo sannarlega hetja kvöldins í Sundsvall þegar hann skoraði sigurkörfu liðsins 1 sekúndu fyrir leiksloks í 87-84 sigri liðsins á Boras á heimavelli. Helgi Magnússon og félagar í Solna unnu Södertalje á útivelli 86-78.
Karfan.is heyrði í Jakobi nú eftir leikinn og var hann gríðarlega sáttur með kvöldið. Aðspurður um hvað hafi flogið í gegnum huga hans í skotinu sagði hann; „Maður hugsar nú ekki neitt í svona skotum, þetta var mikil heppni í þessu, boltinn fór í spjaldið og ofaní.“
En var þetta eitthvað í líkingu við sigurkörfuna gegn Georgíu um árið? „Nei, þeir áttu boltann og 7 sek eftir, þeir skutu og við náðum frákastinu. Ég fékk boltann rétt kominn inn fyrir miðju og rétt náði skotinu af áður en tíminn rann út, henti honum hálfgert bara.“
Hvernig er annars lífið í Svíaríki? „Mér líður vel hérna úti, fer mjög vel um mig og kærustuna og mér líst vel á boltann og við erum með gott lið sem á möguleika á að ná langt.“
Jakob skoraði 19 stig í leiknum, hitti úr 4 af 8 þriggja stiga skotum sínum, tók 6 fráköst, gaf 3 stoðsendingar og stal 3 boltum.
Sigurkörfu Jakobs má sjá hér sem og viðtal við kappann.
Helgi Magnússon skoraði 3 stig fyrir Solna á þeim 20 mínútum sem hann lék og tók 5 fráköst.
Eftir leiki kvöldsins eru Sundsvall og Solna bæði með 10 stig eftir 6 leiki.Norrköping er einnig með 10 en eftir 5 leiki.
Mynd: www.st.nu



