Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir sem leikið hefur með Keflavíkingum síðustu ár mun halda á heimaslóðir og leika með Njarðvík á þessu tímabili. Þetta staðfesti Sigurður Hilmar Ólafsson formaður kvennaráðs UMFN við Karfan.is í gærkvöldi. Óvíst er þó hversu mikið hún mun leika með liðinu en von er á að hún geti leikið í það minnsta 5 leiki fyrir áramót og var Sigurður vongóður um að hún myndi einnig getað verið með eitthvað eftir áramót.
Ingibjörg er duglegur bakvörður og er öllum hnútum kunnug í Ljónagryfjunni þar sem ferill hennar hófst. Ingibjörg spilaði sem fyrr segir með Keflavík í fyrra og var þá að skora um 13 stig á leik. Ingibjörg fluttist svo búferlum til Þýskalands með unnusta sínum, Loga Geirssyni fyrir þetta tímabil. Samkvæmt Sigurði formanni þá stundar Ingibjörg fjarnám í Háskóla Reykjavíkur og mun þurfa að koma heim og sinna nokkrum tímum sem ekki er hægt að taka í fjarnámi. Ingibjörg hafði gert samning um að leika með Bielefeld Lady Dolphins í þýskalandi og má gera ráð fyrir að hún hafi losað sig undan þeim samningi.



