Í kvöld fer keppnistímabil Iceland Express deildar karla í hönd, en af því tilefni settust spekingar karfan.is á rökstóla og spáðu fyrir um komandi tímabil.
Miðað við spána er ljóst að hlutskipti liðanna í deildinni verður æði misjafnt.
Grindvíkingar eru, eins og í spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna taldir sigurstranglegastir, en það ætti ekki að koma neinum á óvart enda liðið vel mannað og vann Poweradebikarinn örugglega ekki alls fyrir löngu. Það er einnig sammerkt með spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna að Snæfellingum er spáð öðru sæti deildarinnar, enda heldur liðið öllum sínum lykilmönnum og bætir við sig leikmönnum í bakvarðastöðurnar, sem hafa þótt helsti veikleiki liðsins fram að þessu. Einnig er hinn síkáti Ingi Þór Steinþórsson tekinn við þjálfun liðsins, en hann er vel kunnur toppbaráttunni.
Njarðvíkingum er svo spáð þriðja sætinu, en þeir endurheimtu marga heimamenn sem höfðu dreift sér um landið og miðin síðustu ár. Það virðist vera sem þjálfaraskiptin hafi ekki haft neikvæð áhrif á spár, þrátt fyrir að þau komi korteri fyrir mót, enda einn reynslumesti þjálfari landsins tekinn við stjórnartaumunum af þeim reynslumesta.
Nokkuð er í næstu lið á listanum, en þó virðist vera ástæða til bjartsýni hjá Stjörnunni, Keflavík og KR, en þessi þrjú lið skera sig frá næstu liðum á listanum. Stjörnumenn halda sínum leikmannakjarna og hafa bætt reynslumiklum leikmönnum við sem eykur nokkuð á breidd liðsins, en það var eitthvað sem mörgum þótti vanta upp á á síðasta tímabili. KR-ingar mæta til leiks með nánast nýtt lið en aðeins fjórir leikmenn sem léku eitthvað á síðasta tímabili eru enn í vesturbænum. Í staðinn hafa aðrir leikmenn komið heim og liðsstyrkur verið sóttur annars staðar frá. KR-liðið verður eitt það hávaxnasta í deildinni og vel mannaðir undir körfunni og hafa auk þess talsverða breidd, en það verður verðugt verkefni fyrir Pál Kolbeinsson nýjan þjálfara liðsins að spila úr því sem hann er með í höndunum. Keflvíkingar hefja leiktíðina með nýjan þjálfara í brúnni, en þess utan er liðið nánast óbreytt frá síðasta tímabili.
ÍR og Tindastóll verða síðustu liðin inn í úrslitakeppnina. Það verður fróðlegt að sjá hvernig nýr heimavöllur ÍR muni þjóna þeim, en eins og margfrægt er orðið þá spila ÍR-ingar í íþróttahúsi Kennaraháskólans í vetur. Síðast var leikið í úrvalsdeild karla í Kennaraháskólanum fyrir 20 árum. ÍR-ingar misstu Ómar Örn Sævarsson til Grindavíkur, en hafa í staðinn fengið stigahæsta leikmann deildarinnar 2008-2009, Nemanja Sovic, í sínar raðir. Tindastóll skipti um þjálfara eftir síðasta tímabil og tók heimamaðurinn Karl Jónsson við en halda öllum sínum kjarna frá síðasta tímabili.
Ef marka má spána er ljóst að nýliðar Fjölnis og Hamars munu halda sér uppi, en þó ekki meira en það, það verður þá hlutskipti Breiðabliks og FSu að falla, en bæði lið hafa orðið fyrir blóðtöku í sumar þar sem kjarninn beggja liða hefur leitað á önnur mið. Nýir þjálfara hafa einnig tekið um stjórnartaumana og þeirra bíður ærið verkefni.
Hvað svo sem öllum spám líður, þá er ljóst að spennandi leiktímabil fer í hönd strax í kvöld, en deildin hefst þá með þremur leikjum. Snæfellingar taka þá á móti Hamarsmönnum, Íslandsmeistarar KR skreppa austur fyrir fjall og leika gegn FSu á Selfossi og ÍR tekur á móti Njarðvík í Kennaraháskólanum. Fyrstu umferð lýkur svo annað kvöld þegar Blikar sækja Keflvíkinga heim, Tindastóll mætir Grindavík á heimavelli sínum og Stjörnumenn taka á móti Fjölni.
Spáin:
1. Grindavík 106
2. Snæfell 96
3. Njarðvík 94
4. Stjarnan 75
5. Keflavík 71
6. KR 69
7. ÍR 51
8. Tindastóll 49
9. Fjölnir 36
10. Hamar 23
11. Breiðablik 19
12. FSu 13



