Tindastóll og Grindavík mættust á Króknum í kvöld í Iceland Express deild karla. Grindavík nýlegir Poweradebikarmeistarar og því spáð að þeir taki dolluna í vor. Tindastóll án annars erlenda leikmannsins, en Ricky Henderson sem samið var við í haust kemur ekki vegna dómsmáls heima fyrir og Stólarnir því miðherjalausir í kvöld. Grindvíkingar tefldu hinsvegar fram sínu sterkasta liði og Brenton Birmingham kominn í hópinn frá Poweradebikarnum.
Byrjunarlið Tindastóls skipuðu Axel Kárason, Helgi Freyr Margeirsson, Friðrik Hreinsson, Svavar Birgisson og erlendi leikstjórnandinn, Michael Giovacchini. Hinu megin voru það Arnar Freyr, Ómar Örn, Páll Axel, Þorleifur og Amani Bin Daanish.
Grindvíkingar byrjuðu sterkt bæði sóknarlega og varnarlega, komust í 1 – 7 og beittu pressuvörn. Stólarnir áttu í vandræðum með hana í upphafi, en unnu sig smátt og smátt út úr því og löguðu jafnfram sína vörn. Tindastóll komst yfir 11 – 9, en síðan var jafnræði með liðunum út leikhlutann, sem einkenndist af góðum varnarleik. Staðan 18-17 að honum loknum.
Í öðrum leikhluta gekk lítið hjá heimamönnum sóknarlega og litu aðeins tvö stig ljósið fyrstu fimm mínútur hans. Gestirnir skoruðu hins vegar 13 stig og munaði þar mest um að Páll Axel hrökk í gang og skoraði á þessum kafla 9 stig. Staðan orðin 20 – 30. Stólarnir náðu að berja í brestina fram að hléi og var munurinn 12 stig í hálfleik, 28 – 40. Grindvíkingar pressuðu hátt á köflum og náðu nokkrum ódýrum körfum í leikhlutanum, en sóknarleikur Stólana var að sama skapi ekki nógu góður. Varnarleikurinn bjargaði því að munurinn var ekki meiri. Í leikhlutanum komu tilþrif leiksins þegar Amani Bin Daanish átti eina “monster” alleyoop troðslu.
Eftir hléið minnkuðu Stólarnir muninn í 9 stig á fyrstu tveimur mínútunum, en þá svöruðu Grindvikingar með jafn mörgum stigum í röð næstu þrjár mínúturnar. Munurinn kominn í 18 stig og orðið nokkuð ljóst hvert stefndi. Helgi Freyr fékk síðan þrjár villur á skömmum tíma og spilaði lítið í leikhlutanum Gestirnir juku svo muninn til loka hans og var hann orðinn 23 stig. Staðan 42 – 65 þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum.
Grindvíkingar slógu lítið af það sem eftir var leiks og breikkaði bilið á liðunum jafn og þétt. Síðustu mínúturnar fengu svo allir leikmenn að spreyta sig, en nokkrir Tindastólsmenn voru orðnir tæpir á villum og Helgi Rafn fékk sína fimmtu villu þegar 7 mínútur voru eftir. Ármann Vilbergsson kom sterkur inn af bekknum hjá Grindvíkingum og setti þrjá þrista í restina. Lokatölur 64 – 95.
Grindvíkingar komu sterkir til leiks í kvöld og ætluðu sér greinilega ekki að vanmeta heimamenn. Byrjunarliðið hjá þeim var með 10 stig í leiknum nema Þorleifur sem náði sér ekki á strik. Brenton kom svo öflugur inn af bekknum og skoraði 18 stig og var stigahæstur ásamt Daanish. Gestirnir hittu úr 11 af 35 þriggja stiga skotum sínum á meðan Stólarnir hittu aðeins úr 3 af 22. Með betri hittni þar hefðu heimamenn getað sett aðeins meiri spennu í leikinn. Barátta Tindastólsmanna var þó góð lengstum, en sóknarleikurinn var ekki nógu agaður í kvöld. Grindavík var 1 – 2 klössum betri í kvöld og í fyrri heimsóknum sínum í Síkið hafa þeir ekki virkað eins sterkir og nú.
Bestir Grindvíkinga voru Daanish og Brenton. Páll Axel og Arnar áttu skínandi leik og Ómar var öflugur á köflum.
Hjá Stólunum var Svavar góður, með 20 stig og 10 fráköst, en hitti illa fyrir utan þriggja stiga línuna. Michael átti einnig fínan leik með 10 stig og 11 fráköst. Axel var öflugur að vanda varnarlega með 9 fráköst, en náði sér ekki á strik sóknarlega eins og flestir Tindastólsmenn.
Stigaskor Tindastóls: Svavar 20, Friðrik 11, Michael 10, Helgi Freyr 8, Helgi Rafn 5, Sveinbjörn 4, Axel 3, Hreinn 2 og Einar 1.
Grindavík: Brenton 18, Daanish 18, Páll Axel 17, Arnar 10, Ómar 10, Ármann 9, Björn Steinar 5, Ólafur 4, Þorsteinn 2 og Þorleifur 2.
Tölfræði leiksins
Dómarar leiksins voru þeir Jón Guðmundsson og Einar Þór Skarphéðinsson. Þeir áttu fínt kvöld, leyfðu töluvert, en héldu sinni línu út leikinn.
Tölfræði leiksins.
Fleiri myndir
Dómarar leiksins voru þeir Jón Guðmundsson og Einar Þór Skarphéðinsson. Þeir áttu fínt kvöld, leyfðu töluvert, en héldu sinni línu út leikinn.
Áhorfendur: 230.
Texti: Jóhann Sigmarsson.
Myndir: Hjalti Árnason.



