Stjarnan vann í dag Þór Akureyri 74-69 í dramatískum leik í Ásgarði í 1. deild kvenna. Stjörnuliðið er að mestu skipað fyrrum leikmönnum Ármanns sem færðu sig yfir í sumar. Stjarnan hefur ekki áður sent lið til keppni í meistaraflokki kvenna.
Leikurinn var jafn í upphafi og þriggja stiga flautukarfa Georgía Olga Kristiansen tryggði að forysta Þórs var aðeins eitt stig, 16-17, eftir fyrsta leikhlutann. Stemmninguna sem skapaðist við körfuna tókst Stjörnustúlkum ekki að nýta sér lengur. Sóknarleikur þeirra hrökk í algjöran baklás og gestirnir að norðan leiddu í hálfleik 24-44.
Stjarnan breytti þá um leikaðferð og spilaði aðgangsharðari vörn. Norðanstúlkur áttu í vandræðum með það og smám saman saxaðist á forskot þeirra. Um tíma í þriðja fjórðungi var það komið niður í tíu stig en Þórsarar réttu við í lokin og voru 42-57 yfir þegar honum lauk.
Fjörið fór á fullt í seinasta fjórðungi. Stjarnan hélt áfram á sömu braut á sama tíma og Þór fraus. Ekki bætti úr skák að tveir leikmenn þeirra fóru út af með fimm villur en þegar yfir lauk hafði einn Stjörnumaður farið þá leið. Þegar um fjórar mínútur voru eftir jafnaði Stjarnan. Æsingurinn jókst og mitt í honum öllum fékk þjálfari Þórs tæknivillu fyrir kjaftbrúk en hann hafði fengið tiltal vegna þess skömmu áður. Sá hafði stóran hluta leiksins skammast út í dómarana sem honum þóttu ekki dæma skref á Stjörnuna eins og við áttu.
Þórsarar stóðu með pálmann í höndunum þegar rúm mínúta var eftir. Karfa þeirra var dæmd gild og vítaskotið sem bættist við fór ofan í. Staðan var þá 66-69. Stjarnan svaraði með körfu og vítaskoti í kjölfarið. Taugar þeirra héldu og sigurinn varð 74-69.
„Fyrsti fjórðungurinn var góður en stelpurnar voru taugaóstyrkar sem opnaði Þór færi. Annar leikhlutinn var vondur og ég þurfti að grípa til róttækra ráðstafana í seinni hálfleik. Við pressuðum Þór framar og þá fórum við að minnka muninn,“ sagði Barry Timmermans, þjálfari Stjörnunnar í leikslok. „Ég er ánægður með að við skyldum vinna okkur inn í svona leik. Hjaltey átti stórleik og dró liðið áfram á köflum en í heildina var það liðsheildin sem skipti máli.“
Hjaltey Sigurðardóttir varð stigahæst hjá Stjörnunni með 28 stig, Georgía Olga skoraði 15 og Agnes Hauksdóttir skoraði þrettán stig auk þess sem hún tók 21 frákast. Í liði Þórs skoraði Rut Konráðsdóttir mest, 24 stig. Linda Hlín Heiðarsdóttir skoraði 12 stig og Helga Þorgilsdóttir ellefu.
Mynd: Hjaltey Sigurðardóttir
Gunnar Gunnarsson



